141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[10:52]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin. Það er mikilvægt að muna að Akureyrarmódelið svokallaða í samþættingu heilbrigðis- og félagsþjónustu hefur reynst mjög vel. Allir íbúar þar fagna því og eins á Höfn í Hornafirði. Það er kominn tími til að útfæra það fyrir önnur sveitarfélög í landinu enda hafa þau mörg kallað eftir því, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu þar sem heilsugæslan er og hefur verið miklum mun verri en hún er víða úti um land. Á höfuðborgarsvæðinu eru margir án heimilislæknis og leita beint í rándýra sérgreinaþjónustu. Ég fagna því að væntanlegar séu tillögur til að styrkja heilsugæsluna og koma á sveigjanlegu tilvísanakerfi, eins og ég kalla það.

Mig langar að varpa annarri spurningu til hæstv. ráðherra. Ég hef fagnað sérhverju skrefi í þá átt að reisa nýjan Landspítala. Nýr Landspítali þýðir ekki aðeins betri aðstöðu og þjónustu við sjúklinga heldur líka við aðstandendur þeirra, við starfsmenn sjúkrahússins og alla þá nemendur sem eru þar á hverjum degi. Landspítalinn er jú ein stærsta menntastofnun þjóðarinnar. Við skulum ekki gleyma því að nýr spítali þýðir sparnað í rekstri upp á 2 milljarða kr. á ári fyrir utan að þjónustan sem þar verður hægt að veita verður betri sem og öll aðstaða. Það hafa orðið nokkrar tafir á undirbúningi þessa verks og ég hef orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með það. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hver séu næstu skref á leið til nýs spítala.