141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[10:54]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég deili þeim skoðunum með hv. þingmanni að Akureyrarmódelið, sem líka er virkt á Höfn í Hornafirði, hefði maður viljað sjá víðar. Sveitarfélögin og ríkið eru að vinna mjög vel saman á einstökum öðrum stöðum þó að það sé með öðrum hætti.

Ég er sammála því að við verðum að styrkja heilsugæsluna á þann veg að hún verði víðtæk þjónustustofnun í heimabyggð og geti veitt íbúum breiða þjónustu, hvort sem er í Reykjavík eða úti á landi. Þrátt fyrir Akureyrarmódelið eru flestir á bak við hvern heimilislækni á Akureyri, merkilegt nokk. Það er ljóst að við þurfum að fara yfir það skipulag í heildina, hver mannaflaþörfin er og hvernig við mætum henni.

Ég er líka sammála hv. þm. Álfheiði Ingadóttur um að eitt af okkar stóru verkefnum sé nýr Landspítali. Þar hefur ýmislegt tafið framkvæmdina. Við skulum vera þess minnug að þegar Alþingi samþykkti að halda í þá vegferð, þetta þing samþykkti það, var það með þeim fyrirvara að málið færi fyrir fjárlaganefnd. Þá átti að skoða hagræðinguna við að færa starfsemina í nýja byggingu eða á einn stað. Sú hagræðing átti að skila greiðslum á kostnaði við bygginguna. Þar hafa menn lagt fram útreikninga sem sýna allt upp í 2,7 til 2,8 milljarða en ekki bara 2, sem á þá að duga fyrir fjárfestingunni.

Staðan er þannig að þetta er að klárast í skipulagsmálum. Það er verið að vinna að málum og skoða og það þarf að koma með það fyrir þingið að fara jafnvel með þetta sem ríkisframkvæmd. Það verður einfaldlega að skoða það vegna þess að bókhaldsreglur og annað er með þeim hætti. Við vinnum ótrauð að þessu áfram en auðvitað verður að tryggja að Alþingi verði á bak við það og sátt náist við Reykjavíkurborg. Ég er sannfærður um að þetta sé skynsamleg framkvæmd, einmitt út frá því sem hér var sagt, vegna bættrar þjónustu, vegna þess að við þurfum bætta aðstöðu fyrir fagfólkið okkar, fyrir starfsfólkið, og ekki síst fyrir sjúklingana.