141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[10:56]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég fagna þessu umræðuformi, það er gott að geta átt orðastað beint við hæstv. ráðherra um hans málaflokk.

Ég var að renna yfir fjárlögin og get ekki betur séð en að ekki séu tryggð kjör þeirra hópa sem hvað viðkvæmastir eru í samfélaginu. Þá á ég einna helst við öryrkja og ellilífeyrisþega. Þeir hópar voru fyrstir til að þurfa að þola niðurskurð eins og við vitum og hafa þurft að lifa í mikilli neyð. Sú neyð fer því miður vaxandi. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Getur verið að ég sé að lesa eitthvað vitlaust í fjárlögin? Getur hæstv. velferðarráðherra upplýst mig um ef svo er? Og ef ekki er gert ráð fyrir að rétta hlut öryrkja og ellilífeyrisþega getur þá hæstv. ráðherra útskýrt hvernig stendur á því?

Mig langaði líka að nota tækifærið og fagna því að ekki er eins mikill niðurskurður og verið hefur í grunnstoðunum og þá sérstaklega í heilbrigðiskerfinu. Ég hef þó mjög miklar áhyggjur af ástandinu á Landspítalanum. Ef hann á ekki að fá neitt til baka eftir allan þennan niðurskurð er hætt við að ástandið verði ólíðandi á næstkomandi fjárlagaári og hreinlega hættulegt.

Að lokum langar mig aðeins að heyra um áætlanir varðandi tannlækningar barna. Við vitum að ástandið er slæmt hjá ákveðnum hópum. Mig langar að vita hvort til stendur að taka á því vandamáli, eða hvort við verðum enn í þeirri stöðu að foreldrar þurfi að borga fyrir tannlækningar barna sinna. Eru einhverjar tillögur um úrbætur í því? Ég veit að það er við ramman reip að draga.

Ég hafði heyrt fyrir um það bil tveimur árum að ákveðið hefði verið að bíða með leiðréttingar á kjörum ellilífeyrisþega og mig langar að spyrja ráðherra hvort það verði ekki lagað núna.