141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[10:59]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Kærar þakkir fyrir þessar fyrirspurnir.

Varðandi almannatryggingakerfið, bæði ellilífeyri og örorkubætur, hefur starfshópur verið að störfum og hefur skilað formlegri tillögu um breytingar er varða ellilífeyrisþega en ekki hefur náðst að ljúka vinnunni varðandi öryrkja. Eins og kunnugt er hefur Öryrkjabandalagið ekki formlega tekið þátt í vinnunni, þó að það hafi ekki sagt sig úr hópnum.

Í frumvarpinu er annars vegar gert ráð fyrir 3,9% hækkun bóta á milli ára sem er samkvæmt lögum. Í öðru lagi eru ákvæði sem snerta víxlverkanir bóta. Það hefur verið þannig að lífeyrissjóðsgreiðslur hafa skert að fullu ákveðna þætti í kerfinu, sérstaklega sérstaka framfærsluuppbót, það er króna á móti krónu þar. Þar var gert samkomulag um breytingu á þessu í fyrra og fór sú breyting í gegnum lög að markið yrði sett upp í 29.100 kr., sem er sama upphæð og hjá öryrkjum. Þriðjungur af því er hér í frumvarpinu upp á 700–800 milljónir.

Tillagan sem komið hefur fram er sú að gengið verði enn lengra, að þessi 100% skerðing á sérstöku framfærsluuppbótinni lækki niður í 80% og síðan í þrepum þannig að almennt verði skerðingin við tekjur og við ákveðin tekjumörk 45%, þar sem bótaflokkar verða sameinaðir. Þetta yrði gríðarlega mikið réttlætismál og vonandi tekst okkur að koma þessu í gegn varðandi ellilífeyrisþegana en þá eigum við eftir að vinna vinnuna áfram varðandi öryrkjana, en að hluta til koma þeir að þessari lausn.

Varðandi leiðréttingarnar sem verið er að rukka um — það voru frávik frá lögunum varðandi skerðingarnar 2009 og tekið er á því með þessari nýju tillögu. Það er ekki gengið til baka. Það skýrir óánægju öryrkjanna, þeir vilja fá hana til baka fyrst áður en þeir fara í frekari vinnu.

Varðandi tannlækningar barna hækkuðum við hlutfall endurgreiðslunnar miðað við gömlu gjaldskrána þar sem greiðsluþátttakan er 75%. Við hækkuðum gjaldskrána um 50% í vor til að reyna að bæta stöðuna hjá þeim hópi. Við erum með í gangi vinnu, samstarf við tannlækna, (Forseti hringir.) þar sem við erum að reyna að koma böndum á þetta. Vandamálið hefur verið að það hefur enginn samningur verið í gildi við tannlækna í næstum 20 ár, með einhverjum undantekningum í eitt og eitt ár. Ég svara kannski fleiri spurningum síðar.