141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:02]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Mig vantar enn þá betri tímaramma, hvað það muni taka langan tíma nákvæmlega að reikna þetta allt út þannig að fólk viti um það bil hvenær það geti vænst þessa, og þurfi ekki að svelta síðustu vikuna í mánuðinum.

Eitt finnst mér persónulega svolítið skringilegt. Maður heyrir oft í fréttum að það hafi orðið mistök við útreikninga til þeirra sem fá bætur frá Tryggingastofnun og fólk fær meira en það átti að fá og svo er seilst í vasa þeirra og farið fram á að það endurgreiði. Oft á fólk enga peninga til þess að endurgreiða. Mér finnst svo skrýtið af hverju þetta er enn þá svona. Er verið að reyna að tryggja að þessi mistök sem eiga sér allt of oft stað verði ekki fleiri? Af hverju er ábyrgðinni alltaf velt yfir á þá sem í raun og veru þola ekki að það sé verið að tína til baka af þeim það litla sem þeir fá?

Mig langaði líka aðeins að heyra meira um það hvernig vinnunni við almannatryggingakerfið miðar áfram, en ég hef fylgst með því Öryrkjabandalagið er ekki lengur beinn aðili að þeirri vinnu. Er hún í samræmi við kröfur þeirra og óskir? Lítur út fyrir að það verði sátt um endanlega niðurstöðu þessarar vinnu sem fer fram í ráðuneytinu?