141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:04]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrst um þær skerðingar sem við höfum verið að ræða um vegna ellilífeyrisþega. Það er rétt að margir búa við lök kjör enn þá og við höfum auðvitað reynt að fylgjast með og reyna að grípa inn í. Eitt stærsta inngripið á sínum tíma var að setja inn sérstaka framfærsluuppbót. Hér fyrir hrun var lágmarkið sem tryggt var 120 þús. kr., en með þessu inngripi er það þó komið upp í 203 þús. kr. og hefur aldrei verið hærra í hlutfalli við lágmarkslaun. Það fer síðan upp um 3,9% um áramótin. Við bættum þarna inn allt að 35 þús. kr. sem er sérstök framfærsluuppbót, en það breytir ekki því að þeir sem höfðu aðrar tekjur fengu það ekki greitt þannig að menn sátu svolítið fastir í 203 þús. kr.

Tillögurnar sem verið er að vinna með miðast einmitt við að hleypa því af stað að lífeyrissjóðir fari að vega betur, menn sjái augljósan ávinning af því að borga í lífeyrissjóð og fái greiðslur þaðan. Öryrkjarnir fá þetta að hluta með 29 þús. kr., sem er frítekjumark, en ellilífeyrisþegar fá það ekki, þannig að það er eiginlega meginbreytingin sem kom fram.

Ég deili áhyggjum hv. þingmanns af því að það er alltaf erfitt þegar menn fá eftiráútreikninga. Þarna eru samskipti milli Tryggingastofnunar og einstaklinganna ekki nægilega góð varðandi það að gefa réttar upplýsingar þegar breytingar verða á tekjum. Menn freistast til þess að bíða með að gefa upplýsingar um breytingarnar og síðan koma útreikningarnir eftir á um að viðkomandi hafi haft hærri tekjur og þegar skerðingarnar eru svona miklar kemur það sem högg eftir á.

Þetta hefur þó minnkað og það eru miklu meiri greiðslur út úr kerfinu, greiðslur sem Tryggingastofnun er að borga til fólks sem á þær inni, en það sem er tekið af. Það breytir ekki því að þarna eru einstaklingar sem fá á sig kannski 200–300 þús. kr. bakreikning sem er nánast óyfirstíganlegt ef maður á að lifa af 203 þús. kr. Við deilum því áhyggjunum af þessu og það er verið að vinna í því að reyna að koma þessu yfir í samtímann, þetta hafa verið fyrir fram greiddar bætur. Kannski hefðum við getað náð betri tökum á þessu (Forseti hringir.) með því að borga þær eftir á.