141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:09]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki lesið þetta viðtal í Fréttatímanum í dag en mun að sjálfsögðu lesa það vegna þess að það er mikið áhyggjuefni ef Barnaspítalinn okkar er að klikka. Hann hefur verið, eins og hér hefur komið fram, eitt af okkar flaggskipum, veitt gríðarlega góða þjónustu, þjónustu sem við viljum hafa í lagi. Það er raunar þannig, og ég þekki hér ágætlega til, að móttaka barna og öll umönnun þeirra og aðgengi að þjónustu er með því besta hér á Íslandi, það er óhætt að fullyrða það, í gegnum barnaspítalann auk þess sem fyrirtæki reka sérstaka þjónustu. Það er raunar móttaka annars staðar rétt hjá spítalanum, í Domus Medica sem veitir þjónustu til barna líka sem er borguð af ríkinu að mestu.

Ég tek undir með hv. þingmanni að að sjálfsögðu verðum við að standa þessa vakt og það er mikilvægt sem hv. þingmaður nefnir. Við höfum farið í gegnum þessa erfiðleika, við erum búin að skera niður og við erum búin að aðlaga. Nú fáum við hlé. Það er einmitt núna sem við eigum að skoða hvar þarf að bæta í, hvar þarf að laga, hvernig við getum búið betur að starfsfólki, aukið þjónustuna að nýju og hvar við þurfum að auka hana. Þetta er sú vinna sem á að eiga sér stað á næsta ári og héðan í frá. Þar erum við auðvitað að skoða hagkvæmni og annað. Eins og hv. þingmaður benti réttilega á er spurningin þessi: Erum við að nýta þjónustuna á réttum stöðum? Er of mikið og greitt aðgengi að bráðamóttöku þegar menn ættu að leita sér aðstoðar annars staðar?

Þessi vinna er í fullum gangi en því miður get ég ekki sett fram tímaáætlun um hvenær hún verður innleidd, hún verður heldur ekki gerð í átökum eða hamagangi. Við þurfum að nýta okkur öflugt sérgreinalæknakerfi því að það skiptir okkur líka máli. Það er engin ástæða til að fara til heilsugæslunnar þegar maður ætlar að fara til háls-, nef- og eyrnalæknis og maður veit hvert meinið er, það er dýrt að fara á tvo staði, því það kostar vinnutíma fyrir viðkomandi. En það verður þá að vera þannig að við séum ekki að borga margfalt meira fyrir það.

Í dag er þessu stýrt með fjármagni, það er ódýrara að fara til heilsugæslunnar (Forseti hringir.) en til sérgreinalæknis en það dugir samt ekki til.