141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:11]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Ég vil hins vegar benda á að það sem ég var að spyrja eftir hefur verið í skoðun allt þetta kjörtímabil. Það hlýtur að vera komið að þeim tímapunkti að við hættum að skoða hlutina og við förum að framkvæma. Það virðist vera mikill stuðningur innan þings og líka hjá þeim samráðshópi sem ég tók þátt í, við framtíðarstefnu eða framtíðarskipan í velferðarkerfinu. Menn virtust almennt vera sammála um þetta.

Síðan vil ég líka taka fram að hinn ungi faðir var ekki að tala um að hann hefði ekki fengið góða þjónustu á Barnaspítalanum. Hann var bara að tala um að álagið væri orðið svo mikið á starfsfólkinu að hann hefði áhyggjur af því að vegna þess að þau væru að sinna öðru mjög mikið veiku barni mundi hugsanlega eitthvað geta komið fyrir son hans því að hann þyrfti mjög mikið eftirlit.

Það sama hef ég líka séð á hjartadeild Landspítalans. Þar er starfsfólkið kófsveitt við að reyna að sinna störfum sínum eins vel og það getur. Það leggur virkilega mikið á sig. Þetta hef ég líka séð á sjúkrahúsum í Norðvesturkjördæmi sem hæstv. ráðherra er þingmaður fyrir, ég hef séð þetta í mínu kjördæmi, Suðurkjördæmi. Við verðum hreinlega að horfast í augu við það að það er ekki hægt að skera jafnmikið niður og hefur verið gert í heilbrigðiskerfinu, í velferðarkerfinu, án þess að við finnum fyrir því. Við verðum að viðurkenna það.

Ég vil hvetja ráðherrann til dáða hvað þetta varðar og benda á, með tilliti til allt að því 100 milljarða kr. fjárfestingu í nýjum Landspítala, hvort ekki sé nær og nauðsynlegra í augnablikinu að skoða hvernig við getum stutt betur við starfsfólkið okkar, hvernig við getum bætt tækjabúnað og lagfært skipulag (Forseti hringir.) heilbrigðiskerfisins á þann máta að það verði betra en í dag, þrátt fyrir að ég sé sammála ráðherranum um að að sjálfsögðu erum við með mjög gott kerfi.