141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:16]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er óhætt að segja að mikil vatnaskil koma fram í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi. Það hlýtur að vera léttir fyrir þann sem fer með málefni velferðar- og heilbrigðismála að geta horft fram á veginn með þær breytingar og þá breyttu stöðu sem blasir við í efnahag og samfélagi. Við erum að snúa við blaðinu og í stað niðurskurðar og samdráttar sjáum við fyrstu sprota af nýjum styrk í velferðarkerfinu. Það er sérstakt ánægjuefni.

Mig langar að nefna nokkur atriði og spyrja hæstv. velferðarráðherra út í það hvernig þau mál verða útfærð og framkvæmd. Það er í fyrsta lagi varðandi fæðingarorlof. Þar kemur fram í fjárlagafrumvarpi að ríkisstjórnin hefur ákveðið í ljósi bættrar stöðu ríkisfjármála að verja um 800 millj. kr. í aukin framlög til Fæðingarorlofssjóðs og er það hluti af sérstökum stuðningsaðgerðum til handa barna- og fjölskyldufólki. Jafnframt kemur fram í frumvarpinu að nánari útfærsla á þessari hækkun og lengingu bótaréttar verði lögð fyrir afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvenær við megum eiga von á því að sjá fyrstu drög að þeim útfærslum, hvernig sé horft til þeirra atriða, sérstaklega varðandi aukna þátttöku feðra í fæðingarorlofi sem hefur því miður minnkað undanfarin ár í þeim samdrætti sem verið hefur, og hvaða hugmyndir eru uppi af hálfu stjórnvalda varðandi frekari innspýtingu í þennan málaflokk og að styrkja sjóðinn á komandi árum.

Ég vek einnig athygli á því að í fjárlagafrumvarpinu er gengið út frá því að hækkuð verði framlög eða útgjöld til lífeyristrygginga um nærri því milljarð í samræmi við samkomulag ríkisstjórnar og lífeyrissjóða um víxlverkun bóta almannatrygginga og greiðslna úr lífeyrissjóðum og hækkun á frítekjumarki ellilífeyrisþega í áföngum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig þetta frítekjumark verður hækkað, hvaða hugmyndir eru um útfærsluna á því og hvenær næstu áfangar verða sýndir í þeim efnum.

Að lokum vil ég spyrja ráðherrann varðandi sjúkratryggingar. Rík áhersla var lögð á það að ná fram hagræðingu í lyfjakostnaði. Við höfum verið með það mál uppi á borði hjá velferðarnefnd núna síðustu missirin. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir tæplega 500 millj. kr. hagræðingu og lækkun lyfjagjalda til viðbótar um 250 millj. kr. Hvaða önnur áform og möguleika sér ráðherra til að sækja fram með hagræðingu á þessu sviði?