141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:19]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi fæðingarorlofið. Ef menn hafa fylgst með fjárlagavinnunni undanfarin ár þá hefur kostnaðurinn fyrir greiðslu fæðingarorlofs stöðugt lækkað. Það er einfaldlega vegna þess að sérstaklega feður hafa tekið fæðingarorlof sitt í minna mæli. Að vísu verður að hafa þann fyrirvara á að menn hafa svolítinn tíma til að bíða með það, þ.e. þeir geta tekið það innan ákveðins tíma, þriggja ára ef ég man rétt. Miðað við fjárlögin hefði átt að fara þarna niður um 800 milljónir. Það var ákveðið að halda tölunni og koma inn með hækkanir. Það á eftir að útfæra það í smáatriðum en þar hafa menn t.d. nefnt skerðingarákvæði fyrir þá sem eru yfir 200 þúsundum. Þá fá menn ekki nema 75% af launum en var áður 80%. Ég held að það sé mikilvægt að samræma þetta og eins að færa hámarkið, sem er núna 300 en var áður allt upp í 550, upp til að auka þátttöku feðra í fæðingarorlofi.

Fæðingarorlofið var sett á á sínum tíma í mikilli sátt og með ákveðnu íslensku módeli þar sem skiptingin er 3 + 3 + 3 mánuðir, karlar, konur eða annað hvort þeirra. Við þurfum að halda þessu og reyna að fara til baka með skerðingu. Á sama tíma er síðan gert ráð fyrir að vinna að því að lenging verði á fæðingarorlofinu á árunum 2014–16 upp í 12 mánuði.

Varðandi milljarðinn sem er hækkun á bótum þá skýrði ég það að hluta til áðan varðandi frítekjumörkin. Þetta er 29.100 sem var samkomulag um að ná á þremur árum þannig að þriðjungur átti að koma á næsta ári en til viðbótar er verið að tala um að lækka skerðinguna úr 100% á þessari sérstöku framfærsluuppbót niður í 80% ef sátt næst um það að fara út í breytingar á almannatryggingakerfinu í samræmi við tillögur sem fyrir liggja.

Varðandi lyfjakostnaðinn þá kem ég kannski betur að því seinna. Gríðarlega góð vinna hefur verið unnin í sambandi við lyfjakostnaðinn, að halda niðri kostnaði, en menn verða að skoða það í samhengi við gengisþróun. Í rauninni hefur verið samdráttur á lyfjaútgjöldum þrátt fyrir allt ef menn skoða það í raunvirði á erlendum gjaldmiðli.