141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:21]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég held einmitt að það sé mikilvægt að við erum að ná þessum áföngum eins og kom fram, hvort heldur er í fæðingarorlofi, varðandi lífeyrisgreiðslur til eldri borgara eða hagræðingu í lyfjamálum. Þetta styður hvað annað.

Það er einn þáttur í viðbót sem er líka mikilvægur og heyrir að hluta undir velferðarráðherra og hefur verið stóra verkefnið hans og snýr að húsnæðismálum. Mig langaði að nefna það hér og spyrja ráðherra frekar út í þau mál. Við erum báðir miklir áhugamenn um að stokka upp bótakerfi, hvort heldur sem það eru vaxtabætur eða húsaleigubætur í nýju húsnæðisbótakerfi. Í þingskjali fjárlaga kemur fram að gert sé ráð fyrir því að fara fram með 1. áfanga í nýju húsnæðisbótakerfi á komandi ári. Mig langar að heyra frá ráðherra hvernig þeirri undirbúningsvinnu miðar og hvenær megi vænta að sjá frekari útfærslur í þeim efnum. Hvaða hugmyndir eru stjórnvöld með um að koma því af stað á árinu 2013? Ég vek einnig athygli á því að það er gengið út frá því samkvæmt fjárlagafrumvarpi að vaxtabætur á árinu 2013 verði með svipuðu sniði og verið hefur, þ.e. að ekki verði skorið niður samhliða hinni breytingunni en hámarksfjárhæðir bóta verði hækkaðar. Það væri fróðlegt að heyra hvað er gert ráð fyrir mikilli innspýtingu inn í kerfið til að mæta þörfinni fyrir slíkar hækkanir.