141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:23]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrst klára ég spurninguna varðandi lyfjakostnaðinn. Samþykkt voru ný lög varðandi lyfjakostnað fyrir einstaklinga. Sú innleiðing átti að vera og er í lögunum 1. október. Nú liggur ljóst fyrir að við munum ekki ráða við þá tímasetningu til að það geti farið fram með eðlilegum hætti. Það er verið að skoða hversu langan tíma þarf til að tryggja að sú innleiðing verði árekstralaus og gangi vel fyrir sig, bara svo að það sé sagt hér. Það er spurning hvort við náum 1. janúar eða hvort við verðum að bíða fram á næsta ár. Ekki var um að ræða neina sérstaka hagræðingaraðgerð heldur þvert á móti að reyna að jafna kostnaðinn fyrir sjúklinga og annað í þeim dúr.

Varðandi það sem við erum aftur á móti með í fjárlagafrumvarpinu þá er gert ráð fyrir skýrari greiðsluþátttöku í ákveðnum lyfjaflokkum þó að haldið verði áfram að endurskoða greiðsluviðmið. Þar hefur náðst verulegur árangur. Menn munu halda áfram að vinna þá vinnu varðandi einstök lyf. Við höfum verið í samanburði við önnur lönd til að kanna hvar við erum að nota lyf óhóflega og munum reyna að fylgja því eftir. Það gildir einmitt líka um lyf sem hafa verið notuð fyrir fullorðna eins og metýlfenídatlyfin sem er verið að skoða hvort þurfi að þrengja skilyrði til að fá. Þau hafa að sjálfsögðu aldrei verið ætluð fyrir fullorðna en eru notuð og þar hefur orðið gríðarlegur vöxtur langt umfram það sem er í nágrannalöndum okkar og það er mikilvægt að ná tökum á því.

Varðandi húsnæðisbæturnar þá liggja fyrir þær tillögur sem hafa komið fram. Það er hárrétt sem hv. þingmaður bendir á að ef við ætlum að fara þar fyrsta skrefið, sem verið er að vinna að núna og reyna að koma í lög og útfærslur, þarf samkomulag við sveitarfélögin varðandi þær tillögur. Ekki er verið að tala um að lækka vaxtabætur á kostnað húsaleigubóta í fyrstu skrefum heldur mundu menn halda vaxtabótunum en reyna að stíga fyrstu skrefin og eru þar að tala um allt að 800 millj. kr. eða eitthvað slíkt sem gæti komið inn til að styrkja húsaleigumarkaðinn. Markmiðið er að reyna að jafna stöðu þeirra sem búa í leiguhúsnæði og þeirra sem kaupa sér (Forseti hringir.) húsnæði. Þessu til viðbótar er verið að vinna að því að stofna leigufélag á vegum Íbúðalánasjóðs sem er líka mikilvægt í þessari umræðu.