141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:25]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að fagna því að fá að eiga orðastað við hæstv. velferðarráðherra um málefni ráðuneytisins og fjárlögin í því sambandi. Mig langar að byrja á því að beina fyrirspurn til ráðherrans varðandi það atriði í fjárlögunum að draga eigi úr styrkjum til fiskvinnslustöðva á þann hátt að lög um það verði afnumin og fjárframlagið fært niður í núll. Þetta mun hafa þær afleiðingar að mínu viti að fyrirtækin munu segja upp láglaunafólki í landi þá mánuði sem hætta er á hráefnisskorti. Hér er í rauninni verið að leggja til aðför að hinum vinnandi stéttum í landinu og mér þykir afskaplega sérkennilegt að sjá það koma frá ríkisstjórn sem kennir sig við sósíalisma og hefur hingað til talið sig vera talsmann hinna vinnandi stétta. Það væri ágætt að fá rökstuðninginn fyrir þessu frá hæstv. ráðherra. Ég þekki til þess að viðræður hafa verið í gangi varðandi þessi málefni í vetur og tel að það kalli á frekari útskýringar að þessi liður fari niður í núll.

Þá langar mig að beina fyrirspurn til hæstv. ráðherra varðandi atvinnumálin en það kemur fram og kom fram í ræðu ráðherrans að ekki standi til að lengja atvinnuleysisbótatímabilið úr þremur árum líkt og hefur verið gert undanfarin ár. Er það gert vegna þess að ráðherrann telur að vandinn sé ekki lengur til staðar eða er einfaldlega verið að færa þennan vanda fólks sem glímir við langvarandi atvinnuleysi yfir á sveitarfélögin? Er ríkisstjórnin með einhverja áætlun til að mæta þessari tilfærslu vandans eins og ég sé þetta fyrir mér? Er það þannig að mati ráðherrans að störfum hafi einfaldlega fjölgað það mikið að engin þörf sé á að grípa til neinna sérstakra úrræða eða telur ráðherrann einfaldlega að sveitarfélögin ráði fullvel við þetta verkefni? Væntanlega munu þessir einstaklingar óska eftir fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögunum og vera þá að hluta á framfæri þeirra.

Þá langar mig að beina fyrirspurn til hæstv. ráðherra varðandi Íbúðalánasjóð. Eins og fram hefur komið í umræðunni þá vantar fjármuni inn í sjóðinn og hann glímir við mikinn vanda. Það kom fram í kynningu hæstv. fjármálaráðherra á þessu frumvarpi að þetta væri óútfært þar, það ætti eftir að átta sig á hver vandinn væri nákvæmlega og hvaða framlag þyrfti að koma til af hálfu ríkisins. Hvaða skoðun hefur hæstv. velferðarráðherra á þessu? Hvað mun hann leggja til við fjármálaráðherra á milli umræðna varðandi málefni sjóðsins? Ég tel að við verðum að fá það fram í þessari stuttu umræðu sem 1. umr. fjárlaga er svo að við getum búið okkur undir frekari umræðu um málið.