141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:28]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi það að draga úr styrkjum til fiskvinnslustöðva vegna hráefnisskorts. Þetta er liður sem var áætlaður í fjárlögum 190 millj. kr. Undanfarin ár hafa frekar háar upphæðir verið greiddar þarna út og í algerri mótsögn við ástandið í sambandi við sjávarútveginn stefnir í að upphæðin fari í 350 millj. kr. á þessu ári. Rökin fyrir því að afnema þetta eru: Af hverju eingöngu í sjávarútvegi? Þetta vandamál sem hv. þingmaður bendir á á auðvitað við miklu fleiri greinar, gæti verið í ferðaþjónustu og í fleiri greinum. Við teljum gríðarlega mikilvægt að halda launþegaráðningarsambandi og þess vegna hafa verið uppi hugmyndir um að forma jafnvel einhverjar almennar tillögur sem gilda þar sem menn geti gripið inn í ef það verða einhver sérstök áföll í viðkomandi greinum en ekki þannig að hráefniskostnaður sé skráður á föstudögum eða annað slíkt eins og dæmi eru um í núverandi kerfi.

Það er rétt að í gang fór vinna í sambandi við leiðréttingar á þessu. Þetta verður þá frekari ítrekun á því að við viljum fá breytingar á þessu og reynum að fylgja því eftir.

Varðandi atvinnumálin, að ekki er framlengt eftir þrjú ár, þá er það í rauninni staðfesting á því að ekki er búið að leysa vandann, það er rétt. Þessi breyting verður eingöngu gerð með sveitarfélögunum, þ.e. sú vinna fer í gang með aðilum vinnumarkaðarins og sveitarfélögunum líkt og var í fyrra. Þá ætluðum við að ná 800 millj. kr. sparnaði. Því náðum við alls ekki heldur höfum við heldur bætt í þannig að sveitarfélögin hafa sloppið býsna vel. Menn hafa farið vel yfir fjögur ár af því að þeir voru ráðnir í átakið Vinnandi vegur eftir lok fjórða ársins og fengu ársráðningu og stuðning inn í árið á eftir. Málið er að við teljum að það þurfi að grípa fyrr inn í gagnvart atvinnuleitendum þannig að við getum leiðbeint þeim um hvort þeim henti vinna eða ekki þannig að við fáum skýr svör um hvar menn eiga heima í kerfinu, á atvinnuleysisskrá, í félagskerfinu, í endurhæfingu hjá Virk eða annars staðar. (Forseti hringir.) Það er verið að vinna áætlun hvað (Forseti hringir.) varðar þennan þátt.

Íbúðalánasjóður verður að bíða næsta svars.