141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það var margt athyglisvert sem kom fram í þeim, meðal annars um fiskvinnslustöðvarnar og starfsfólkið þar að forma eigi almennar tillögur sem eigi við um vinnumarkaðinn almennt og þær greinar þar sem hráefnisskortur eða verkefnaskortur, tímabundinn eftir árstímum, gæti komið til.

Er það þá þannig, frú forseti, að lið vanti þá inn í fjárlögin til að mæta þeim almennu tillögum sem til stendur að smíða? Ég kalla þá eftir því að fá að vita og fá upplýsingar um það: Hvar er sú vinna stödd við að smíða þessar almennu tillögur? Á sínum tíma beindi ég fyrirspurn bréflega reyndar í gegnum alnetið og tölvupóst varðandi kjúklingaframleiðslu vegna þess að fyrirtækin þar höfðu áhuga á að komast inn í samsvarandi kerfi og fiskvinnslustöðvarnar eru í, en því var ekki hrint í framkvæmd í félagsmálaráðuneytinu á þeim tíma og ég gat ekki fundið áhuga á að útvíkka ætti þetta á nokkurn skapaðan hátt. Ef eitthvað hefur gerst í millitíðinni óska ég eftir upplýsingum um það og um þá vinnu við að móta þessar almennu tillögur og kostnaðaráætlun. Eða er þessi liður einhvers staðar annars staðar í fjárlögunum?

Þá er það sama varðandi breytinguna gagnvart sveitarfélögunum og þann kostnað sem sveitarfélögin munu standa frammi fyrir og hæstv. ráðherra segir að þau hafi sloppið við á þessu ári. Ef ríkið er í einhverjum viðræðum við sveitarfélögin um hvernig bregðast eigi við þessum vanda, þ.e. að umtalsvert fleiri muni leita eftir fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögunum, mun það þá heldur ekki kosta neitt? Er ráðherrann að segja að verið sé að semja við sveitarfélögin á þann hátt að sveitarfélögin taki þetta algjörlega á sig eða eru einhverjir samningar í gangi gagnvart sveitarfélögunum um að ríkið komi eitthvað þar að málum? Getum við fengið upplýsingar um það? Hvað mun það kosta ríkið og hvar er sá liður í fjárlögunum?