141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:33]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrst um fiskvinnsluna, þessi vinna er ekki farin í gang svo við séum bara alveg hreinskilin varðandi það og það er ekki fjárlagaliður sem tekur sérstaklega á því. Þessi útgjöld eru undir Atvinnuleysistryggingasjóðnum og mun verða skoðað hvort menn ná samstöðu um almenna reglu sem verður þá svona eins og neyðarregla en ekki aðgangur að bótum ef menn loka í einhvern ákveðinn tíma eða eitthvað slíkt. Það er mikilvægt. En ég held að við þurfum þarna einmitt að hafa jafnræði í huga og ég held að aldrei sé betri tími en núna þegar við erum að keyra sjávarútveg okkar vel, sem betur fer, hann hefur aldrei átt betra ár en í fyrra í afkomu og öðru slíku. Það er því mótsögn að við skulum á sama tíma til að halda ráðningarsamningi hjá viðkomandi fyrirtækjum stórhækka útgjöldin þar. Ég held að við verðum að vera hreinskilin og skoða það að eitthvað er óeðlilegt við það að fyrirtæki sem taka 4–6 milljarða í hagnað fái greiðslur vegna hráefnisskorts fyrir einstaka daga innan ársins. Á þessu þurfum við að taka.

Varðandi Atvinnuleysistryggingasjóðinn er í áætluninni gert ráð fyrir að lækkun sé á útgjöldum vegna fjórða ársins um 1,8 milljarða kr. Það er ekki nema um það bil helmingurinn af því sem hefði náðst ef við hættum alveg við fjórða árið og gerðum ekki neitt. Það er því svigrúm til að fara í aðgerðir sem þurfa að vera til dæmis þær að reyna að tryggja virkniúrræði þar sem það er, vinnu ef mögulegt er. Og við höfum svigrúm í fjárlögunum eins og þau eru lögð fram til að grípa þar inn í að hluta.

Það er eins varðandi Íbúðalánasjóð, þar erum við að hreinsa upp eins og hjá öðrum stofnunum. En um lánastofnun eins og Íbúðalánasjóð, sem er félagslega rekinn og rekinn á ríkisábyrgð, þá hefur hann ekkert svigrúm til að auka fé ef hann missir sitt eigið fé öðruvísi en að fá framlög frá ríkinu. Við veittum fé í hann, 33 milljarða kr. (Forseti hringir.) og fyrir liggur að það geti þurft að veita, ef við ætlum að halda reglugerð um 5% eigið fé, 12–14 milljarðar. Búið er að taka þetta fyrir í velferðarnefnd nú þegar (Forseti hringir.) og skoða þetta þar og við munum leyfa mönnum að fylgjast með þeirri umræðu sem þar er í gangi og vinnu við endurskipulagningu á Íbúðalánasjóði.