141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þann tíma sem hann eyðir með okkur í þetta. Það eru nokkur atriði sem maður hefur rekið augun í hérna við fyrstu yfirferð.

Ég vil þó byrja á því að segja að ég tek ekki undir með þeim sem fagna því að ekki sé verið að skera meira niður. Mér sýnist að verið sé að skera töluvert meira niður, alla vega sums staðar í frumvarpinu, þar á meðal eitthvað undir velferðarráðuneytinu. Það má heldur ekki gleyma því að víða held ég að sé ekkert meira að taka. Búið er að skera svo mikið niður að sumar stofnanir eiga í rauninni í vanda með að reka sig eins og þær eru í dag.

Hér stendur á bls. 376 í frumvarpinu um vinnumál að ekki standi til að framlengja bótarétt einstaklinga í óbreyttri mynd. Mig langar að spyrja ráðherra hvað sé átt við með því. Hver er þessi óbreytta mynd? Eru einhverjar nýjar eða aðrar hugmyndir uppi um það?

Síðan hef ég áhyggjur af því að sú bjartsýni sem ríkir varðandi Vinnumálastofnun eigi ekki eftir að ganga upp, því miður, og þar sé vanáætlað. Ég segi því miður því að það er miður að þarna þurfi yfirleitt að vera einhverjir peningar.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra út í annað ef ráðherrann hefur svör á reiðum höndum. Eftir því sem mér skilst er töluverð lækkun á framlögum til meðferðarheimila, þar á meðal Háholts, og það eigi að hverfa algjörlega árið 2014. Ég veit ekki hvort það er rétt hjá mér, ég hef ekki fundið þetta sjálfur, mér var bara bent á þetta, en ef það er rangt er ágætt að fá staðfestingu á því. Það sem ég hef áhyggjur af eru vitanlega ungmennin sem þar eru vistuð og eins þau 17 störf vitanlega sem þar eru, ef þetta er rétt.

Mér sýnist líka að verið sé að breyta einhverju varðandi heilbrigðisstofnanir, framlög sem hafa verið sett á, svona til þess að bjarga, séu tekin af, til dæmis endurhæfingarframlag sem var norður í landi, á Sauðárkróki. Ef það er rangt hjá mér er ágætt að fá að heyra það því að það mun þá róa marga.

Mér sýnist við fyrstu sýn að verið sé að gera töluverðar breytingar. Ég tek fram, frú forseti, að þessi umræða er mjög góð en svona eftir á að hyggja, eftir að hún er farin af stað sér maður að hún á kannski frekar að fara fram við 2. umr. þegar meiri dýpt er komin í lestur á frumvarpinu og allir komnir með betri mynd af því. En þetta eru fyrstu spurningar og vangaveltur.