141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:38]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Við getum haft ólíkar skoðanir á því hversu gott það er að ná núna núllstillingunni og við deilum því að víða er ekki hægt að ganga nær starfseminni og þess vegna er mikilvægt, eins og ég hef sagt áður, að fara að stilla af og byggja upp það sem hugsanlega þarf að bæta í aftur eða eitthvað slíkt. En það verður ekki gert fyrr en við erum búin að ná enn meiri tökum á þessu.

Varðandi framlenginguna á fjórða árinu í óbreyttri mynd er það einmitt nákvæmlega það sem ég svaraði áðan að fara þarf í viðræður, við hættum ekki 1. janúar og setjum alla þá út sem hafa náð yfir þrjú árin á þessu ári og síðan öllum þeim sem eru að fara í byrjun næsta árs í einu vetfangi. Það getur þurft að grípa til þess að koma með öðru móti inn, það komi með sérstökum aðgerðum. Við þurfum líka að tryggja, eins og ég sagði áðan, að það verði skoðað hvað fer yfir á félagskerfið, hvað fer yfir í endurhæfingu, hvað fer yfir í vinnu. Þegar er komin í gang fyrsta vinnan í sambandi við þetta og ýmsar hugmyndir eru á borðinu en það er of snemmt að segja nákvæmlega hver niðurstaðan verður enda mun hún þá fara fyrir þingið.

Varðandi Vinnumálastofnun og vanáætlun hvað varðar rekstur tek ég undir með hv. þingmanni að við þurfum að standa þá vakt auðvitað, við megum ekki veikja þá stofnun. En við verðum auðvitað samtímis að reyna að stilla hana af, þegar vinnuálagið minnkar þá hagræði stofnunin plús að þar erum við komin inn með nýtt verkefni sem að vísu átti ekki að skerða rekstur Vinnumálastofnunar sem er tilraunaverkefni, þar sem 25% af vinnunni er komið til stéttarfélaga að hluta.

Um Háholt, meðferðarheimilið í Skagafirði, þá er búið að framlengja þar óbreyttan samning til að vísu eins árs. Það hefur verið uppi ákveðin togstreita um hvar eigi að veita þá þjónustu og hversu gott er að hafa hana staðsetta þarna o.s.frv. Ég hef lagt mjög ríka áherslu á að hún eigi að vera þarna og að búa eigi að henni þannig að þetta gangi upp. Samningur er í gangi þannig að ég veit ekki til þess að þar sé nein skerðing nema hugsanlega 0,5% sem er sett á stofnanir undir barnavernd. Það er rétt sem hér hefur komið fram að við tókum það upp að heilbrigðisstofnanirnar yrðu á núlli. Það eru einstaka stofnanir frá 0,5% og upp í 1% hjá öðrum.

Varðandi breytingarnar á heilbrigðisstofnunum — (Forseti hringir.) ég man ekki lengur hver spurningin var, við komum kannski frekar að því á eftir. Ég náði ekki að skrifa svarið.