141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir þetta. Ég hef áhyggjur af því að sú lækkun sem á að verða varðandi … muni ekki ná fram að ganga vegna þess að greinilega og kannski eðlilega er ekki búið að ákveða í hverju þessi breyting á mögulega að felast. Því er kannski eðlilegt að spyrja, ef ekki tekst að breyta, hvort ríkisstjórnin hyggist þá framlengja þetta um eitt ár eða halda áfram að framlengja í þessu kerfi ef ekki tekst að gera þær breytingar sem þarna er verið að velta fyrir sér.

Ég spurði áðan út í þessa plástra, ef ég má orða þannig, sem heilbrigðisstofnanir hafa fengið. Einhvern tíma var það kallað endurhæfingarframlag sem kom á sjúkrahúsið á Sauðárkróki svo dæmi sé tekið, sem mér skilst að falli niður núna ef ég hef skilið þær ábendingar rétt sem ég fékk.

Varðandi meðferðarheimilið sem ég nefndi áðan fagna ég því ef búið er að framlengja samninginn en það er fullyrt að gert sé ráð fyrir lækkun úr 119 milljónum í 59,5 milljónir í þessum samningi. Ég veit ekki hvort það er rétt en ef það er ekki rétt fagna ég því bara, því að það er spurning hvort svona úrræði eða hvað við köllum þetta eigi að — ég veit að skiptar skoðanir eru um það hvernig þetta á að vera, hvar á að reka þetta og hvort þetta sé barn síns tíma. Ég held hins vegar að menn komist ekki hjá því að hafa slík úrræði til staðar og ég veit ekki betur en það hafi gengið ljómandi vel á þeim stöðum sem eftir eru í dag.