141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:43]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á heilbrigðismálunum sem ég sagðist hafa gleymt áðan. Það er mjög mikilvægt að við rifjum aðeins upp hvernig við gerðum þetta í fyrra. Við vorum með niðurskurðaráætlanir en í síðustu yfirferð fyrir lokafrágang fjárlaga var farið inn á einstakar stofnanir og sagt: Við setjum mörkin hér. Hv. þingmaður nefndi réttilega endurhæfingarhlutann á heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki, þar var ákveðið að segja: Við ætlum ekki að leggja hana niður, þetta er ein besta aðstaða í landinu hvað það varðar, við ætlum að halda henni. Þá voru settar inn, ef ég man rétt, um 10 milljónir til að tryggja þann rekstur.

Þær fjárveitingar sem voru gerðar með þeim hætti í lokaafgreiðslunni í fyrra eiga allar að vera komnar inn í grunn. Ég skal nú ganga eftir því hvort það er ekki rétt vegna þess að það var hugmyndin. Síðan var inni í því upphæð í sambandi við húsaleigu þar sem hafði verið vanreiknað á tveimur stofnunum, á Suðurlandi sérstaklega og að hluta til á Vesturlandi. Það er líka að koma inn í grunn, bæði í gegnum fjárauka og svo inn í fjárlög.

Í þriðja lagi voru tvær stofnanir og töluvert hefur verið rætt um aðra þeirra í fjölmiðlum, þ.e. Heilbrigðisstofnun Austurlands, þar sem halli var á rekstri stofnunarinnar, þá var það tekið út fyrir sviga og sagt: Þessi stofnun þarf ekki að mæta þeim halla innan reksturs á þessu ári heldur verður hann frystur. Síðan verður það, ef stofnunin stendur sín fjárlög, klippt af eftir 2–4 ár. Þetta er í samræmi við það sem hefur verið lagt upp með í fjárlögum og ég tel mikilvægt að verði gert. Það þarf að vísu að fara að ganga í þá vinnu, ég veit að hæstv. fjármálaráðherra er að vinna í því, til dæmis því að Landspítalinn er með gamlan halla sem er frosinn en er að standa sinn rekstur ár eftir ár en fær stundum þessar tölur upp á borðið. Þetta þekkir hv. þingmaður mjög vel frá landbúnaðarskólunum líka þar sem alltaf koma fram einhverjar gamlar tölur sem sýna að þar sé einhver halli. Það er sem sagt verið að vinna í þessu.

Um framlenginguna varðandi fjórða árið er útfærslan eftir og við skulum bara sjá hvernig sú vinna þróast. Það verður gert í samstarfi við sveitarfélögin og það er kannski það sem ég svaraði ekki hv. þingmanni áðan að hluti af því verður auðvitað að vera á ábyrgð sveitarfélaga. Það hefur félagslegu þjónustuna og verður að taka það á sig ef viðkomandi er ekki vinnufær eða á ekki möguleika á því að vera í vinnu.