141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:45]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég fagna því fyrirkomulagi sem við höfum tekið upp í umræðu um fjárlög 2013, þ.e. að þingmenn fái tækifæri til að spyrja hvern fagráðherra um málefni sem tengjast honum og málasviði hans.

Frá hruni hefur eðlilega verið mikill niðurskurður og aðhald í öllum opinberum rekstri. Við höfum reynt að hlífa velferðarþjónustunni eins og mögulegt er. Það kemur alls staðar fram. Deilt var um hvort fara hefði átt í enn frekari niðurskurð í opinberum rekstri og þá líka í heilbrigðisþjónustunni, velferðarþjónustunni, strax árið 2009. Hefði það verið gert væru skuldirnar og vaxtabyrðin minni í dag. Ég tel að ekki hafi verið hægt að ganga mikið lengra hvað varðar niðurskurð í heilbrigðisþjónustunni en gert var.

Hver einasta stofnun hefur þurft að gæta mikils aðhalds. Það hafa ekki verið hópuppsagnir en margir hafa misst vinnuna og í hópi þeirra eru margar konur, því miður. Flestir hafa tekið á sig launaskerðingu þennan tíma og því er svo mikilvægt að sjá að núna er ekki gerð niðurskurðar- eða aðhaldskrafa á velferðarþjónustuna eða heilbrigðisþjónustuna þannig að allir starfsmenn sem þar vinna geta horft til þess að það mikla álag sem verið hefur verði senn léttara. En það skiptir miklu máli að tekið sé sérstaklega á þeim stofnunum sem áttu í erfiðum rekstri fyrir hrun og eiga það enn í dag. Þrátt fyrir að við séum búin að ná þessum mikilvæga áfanga í ríkisrekstri skiptir máli að við höggvum ekki í sama knérunn og úthlutum hlutfallslega sama fjármagni til stofnana í velferðarþjónustunni. Það skiptir máli að við notum tækifærið til að gera heilbrigðisáætlun, heildaráætlun, heildstæða stefnu, að við breytum áherslum og leggjum meiri áherslu á forvarnirnar, á fyrsta stigið, heilsugæsluna og síðan á sérhæfða þjónustu. (Forseti hringir.) Ég bið hæstv. ráðherra um upplýsingar um hvar við stöndum í þeirri vinnu.