141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:49]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það hefur verið mikilvægt að reyna að hlífa velferðarþjónustunni þótt hún hafi fengið á sig gríðarlegan niðurskurð og þurfi að gæta mikils aðhalds, eins og við höfum áður rætt. En það er ágætt að vekja athygli á því sem hv. þingmaður sagði, það er forvitnilegt að skoða umræðuna um heilbrigðismálin og stöðu mála og reksturinn fyrir hrun og einnig fjárframlög eins og til tækjabúnaðar og annarra hluta þegar við þóttumst eiga nóga peninga og skiluðum afgangi í fjárlögum upp á 88 milljarða, að sjá hversu naumt var skammtað inn á einstakar stofnanir einmitt þegar þurfti á endurnýjun tækjabúnaðar að halda. Það hefði verið betra að hafa tækin í betra formi þegar við lentum í áföllunum í fjárlagageiranum.

Varðandi áætlunargerðina hefur sú vinna einmitt verið í gangi hjá okkur á tveimur vígstöðvum í velferðarráðuneytinu. Annars vegar er það sem við köllum stundum samstarf með Boston Consulting Group sem vann mikla greiningu með okkur á heilbrigðiskerfinu. Í framhaldi af því voru settir í gang sex starfshópar sem eru nánast allir búnir að skila. Þar undir er þjónustustýringin sem við vorum að tala um og mun það verða rætt hvað við veljum í framhaldinu. Það er annar hlutinn, sem er mjög mikilvægur. Þar er líka verið að ræða heildstætt um sjúkraflutninga á landinu og um heilbrigðisumdæmin, hvaða þjónusta á að vera hvar. Þar er auðvitað líka rætt um hlutverk landlæknis og forvarnir og annað slíkt. Verkefnin eru næg.

Nú er heilbrigðisáætlun til ársins 2020 komin á netið, hún er framlenging á þeirri sem rann út 2010 og er þar til umsagnar. Það er ástæða til að vekja athygli almennings á því að hægt er að fara inn á netið, gera athugasemdir og koma þeim til velferðarráðuneytisins þannig að við fáum fram sjónarmið varðandi heilbrigðisáætlunina. Hún verður síðan lögð fyrir þingið og vonandi samþykkt síðar í formi þingsályktunartillögu á þinginu.