141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:51]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég fagna svörum hæstv. velferðarráðherra og hvet hann til að ýta á eftir þeirri vinnu sem í gangi er. Hún þarf að vera fagleg og hún þarf að vera góð. Það skiptir líka miklu máli að við förum núna inn í uppbyggingartímabilið með einhvern grunn sem við vitum og treystum að er í takt við það sem best er vitað, hvar við eigum að leggja áherslurnar, í forvarnir, í fyrsta stigið, þ.e. heilsugæsluna og síðan í sérfræðiþjónustuna og sérhæfða þjónustu sjúkrahúsa, í dýrustu þjónustuna. Við eigum að nota þetta tækifæri til að snúa alveg við þjónustumunstri okkar, ef ég get sagt sem svo. Við höfum góða sérfræðinga á öllum sviðum en við eigum að efla heilsugæsluna. Það kostar fjármagn en það skilar sér til lengri tíma og við verðum að fara að byrja á því. Við verðum að koma á rafrænni sjúkraskrá. Það er óþolandi að vita að það þurfi jafnvel að margendurtaka sömu rannsóknirnar og fara yfir sömu sjúkraskrána á milli mismunandi lækna og stofnana af því að slík sjúkraskrá er ekki fyrir hendi. Það þarf að koma á heildstæðri þjónustu við börn með þroska- og geðraskanir. Það er ekki ásættanlegt að staðan verði eins og hún hefur verið. Það er heldur ekki ásættanlegt að tannvernd og tannheilsa barna sé eins og hún er í dag. Þetta er nokkuð sem verður að bæta og við þurfum að fara að taka fyrstu skrefin í því að snúa við þróuninni. Varðandi endurnýjun lækningatækja hefur staðan ekki verið verið burðug hjá mörgum stofnunum og erfitt hefur verið að endurnýja tæki vegna fjárskorts. Stofnanir hafa þurft að treysta á gjafir í því sambandi. Setja þarf upp áætlun því að endurnýjun tækja kostar stórfé. Staðan á þessu sviði hefur ekki bara verið slæm frá því að hrunið varð (Forseti hringir.) heldur er um að ræða margra ára trassaskap í kerfinu.