141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Eins og fleiri fagna ég því fyrirkomulagi að geta spurt ráðherrann fyrst og ég ætla að byrja á því að lofa hann fyrir að mér sýnist að ástand lyfja sé nokkuð gott hjá ráðuneytinu. Ég ætla ekki að nefna launamál heilbrigðisstarfsmanna, það er svo eldfimt og nýlegt deilumál en það gæti náttúrlega breytt öllum forsendum fjárlaga.

Ég ætla að tala um 6. gr. Ég er alltaf dálítið hvumpinn út af 6. gr. eftir að Hörpu var smyglað þar inn. Í gr. 7.17 stendur, með leyfi forseta:

„Að veita Nýjum Landspítala ohf. skammtímalán vegna undirbúnings hönnunar nýs Landspítala við Hringbraut.“

Hvað er mikið á bak við það? Um hvað eru menn að tala? Eru þetta 3 milljarðar til að byrja með? Hvað fylgir? Koma þá 50 milljarðar á eftir? Af hverju er ekki talað um það í frumvarpinu að það bara vanti 50 milljarða og það fært til bókar? Ef menn ætla að byggja spítala þurfa menn pening, það er mér alla vega sagt.

Svo er það Íbúðalánasjóður. Nú eru raunvextir að lækka. Vextir á ríkisskuldabréfum eru komnir niður fyrir 2% á sumum skuldabréfunum. Hvað gerist varðandi Íbúðalánasjóð ef menn fara almennt að greiða upp lánin í sjóðnum í stórum stíl vegna þess að betri kjör bjóðast, lægri vextir bjóðast annars staðar? Þá situr sjóðurinn uppi með heilmikla peninga og kemur þeim ekki í lóg. Hann stendur eftir með skuldbindingar með háum vöxtum. Hvað eru þetta margir milljarðar? Það er spurning.

Á bls. 380 er talað um starfsendurhæfingarsjóð. Ég spyr: Er það í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við samninga 5. maí 2011 að taka það ekki allt í einu, að taka það í þrem skrefum, fyrst 1/3, síðan 2/3 og svo allt?

Svo er það hækkun bóta almannatrygginga. Þarna stendur að þær skuli hækka um 3,9%. Þær áttu að hækka síðast um 3,5% en svo varð verðbólgan mun meiri. Hún var 4,5% á yfirstandandi ári. Er þá verið að hafa 1,9% af öllum bótaþegum almannatrygginga? Ef það er meiningin af hverju er það þá ekki sagt? Af hverju er bara ekki sagt: Við ætlum að lækka lífeyrinn um 1,9% vegna þess að við eigum ekki peninga, eða eitthvað slíkt? Mér finnst það ekki alveg nógu heiðarlegt að gera það með þessum hætti, að nota einhverja áætlun um verðbólgu sem stenst svo ekki til þess að lækka bætur almannatrygginga hægt og rólega.