141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:59]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi 6. gr. heimildina. Við höfum stundum rætt þessar heimildir og opnanir. Þarna er væntanlega um að ræða skammtímalán til að reka undirbúninginn að vinnunni við sjúkrahúsið, það leggst svo á framkvæmdina þegar farið verður af stað. Það er út frá þeirri gömlu hugmyndafræði að verkið yrði allt boðið út í einu, þar ætti verktaki allt saman og leigði það síðan út.

Það er alveg klárt ákvæði sem sett var inn í lögin á sínum tíma þegar fjallað var um nýjan Landspítala, að málið kæmi fyrir þingið og yrði afgreitt þar áður en nokkuð yrði sett af stað umfram það að undirbúa verkið. Ég held að það sé afar mikilvægt að við stöndum við það. Forsenda þess að fara í nýjan Landspítala var að menn gætu vegið og metið hvort hagræðingin við það að stytta allar gönguleiðir og auka öryggi og allt það sem er inni í þeim útreikningum, stæðist, hvort það væri mat fjárlaganefndar og Alþingis að það stæðist og hvort hægt væri að ná hagræðingu sem borgaði framkvæmdina á tilteknum tíma. Auðvitað eigum við að standa við það. Ég var formaður fjárlaganefndar þegar ákvæðið var sett inn.

Varðandi Íbúðalánasjóð nefnir hv. þingmaður að sjóðurinn geti lent í vandræðum — sem ekki er raunin núna — vegna uppgreiðslu á lánum vegna þess að betri kjör mundu bjóðast hjá bönkunum. Það er auðvitað metið frá degi til dags hjá Íbúðalánasjóði og af þar til bærum aðilum. Þarna erum við með draug í farteskinu, þ.e. að það eru ekki uppgreiðsluheimildir á ákveðnum hluta af lánum til Íbúðalánasjóðs. Verið er að vinna að lausn á því og reyna að ná samkomulagi um það.

Örstutt varðandi starfsendurhæfingarsjóð. Það sem er í fjárlagafrumvarpinu er í samræmi við samkomulag og hvernig gengið var frá lagaumhverfinu varðandi Virk starfsendurhæfingarsjóð. Við það er staðið hér. (Forseti hringir.)

Varðandi hækkun á bótunum verð ég að koma að því betur á eftir.