141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:03]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrst um hönnun og undirbúning nýja Landspítalans þá held ég að við séum að tala um hundruð milljóna, eitthvað yfir milljarð eða meira. Ég hef ekki þær tölur, þær þarf að fá fram þegar málin verða rædd í fjárlaganefnd, þær tölur þurfum við að fá endanlegar. Þær liggja að sjálfsögðu fyrir og eru bókfærðar á hverjum tíma en áttu sem sagt að fara inn í verkið í heild og þar er búið að vinna gríðarlega mikla vinnu svo að það sé sagt.

Varðandi raunvaxtalækkunina og áhrifin á Íbúðalánasjóð er ég kannski ekki jafnáhyggjufullur og hv. þingmaður. Menn standa þar vaktina og ég held að allir séu meðvitaðir um hver staðan er. Sérstök nefnd um ríkisfjármál og stöðugleika hefur skoðað þetta og fylgist með þessu, verið er að vinna að viðbrögðum o.s.frv. Uppgreiðsla í sjálfu sér — það er líka takmarkað hvað bankarnir geta komið inn á þennan markað og til hve langs tíma. Ég tel afar mikilvægt að farið verði yfir þennan markað og neytendalánin almennt skoðuð, hverjir mega koma inn á húsnæðismarkað, til hve langs tíma. Menn eru jafnvel að lána í húsnæðiskostnaði með föstum vöxtum til skamms tíma og síðan með breytingarákvæði — spurning hvort leyfa á bönkunum að leggja þá áhættu á neytendur. Þetta eru allt saman hlutir sem þarf að ræða og eru hluti af miklu stærra máli sem heyrir ekki nema að litlu leyti undir velferðarráðuneytið.

Hvað bæturnar varðar er hækkunin um 3,9%. Það er rétt að launavísitalan réði í fyrra, þá var meðalhækkunin 3,5%. Ákvæði er um það í lögum að það skuli vera neysluvísitala eða launavísitala eins og hún er lögð fram og hærri talan skuli tekin. Við þurfum ekki að fara í undanþáguákvæðið og segja að vikið sé frá þeirri reglu af því að menn taka hærri vísitöluna í þessu tilfelli, sem er 3,9%. (Gripið fram í.) Já, að sjálfsögðu er það þannig en þannig eru lögin. Menn geta ekki keyrt upp vísitöluna með því að setja einhverja áætlun um miklu hærri tölu (Forseti hringir.) ef þetta er raunáætlunin hjá þeim sem vinna alla hagspána og fjárlagagrunnurinn er byggður á.