141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:06]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að fá þetta tækifæri til að ræða þann málaflokk í fjárlagafrumvarpinu sem heyrir undir mig. Ég tel að þetta fyrirkomulag umræðunnar sé góð nýbreytni. Tíminn er skammur þannig að ég fer eingöngu yfir stóru línurnar. Það má segja að fjárlagafrumvarp ársins í ár, eða fyrir næsta ár, beri merki aðhaldssemi á flestum sviðum og bætist sú aðhaldssemi ofan á aðhald og niðurskurð undangenginna ára.

Þar hefur þó verið sett upp skýr forgangsröðun í þágu velferðar- og menntamála og má segja að í þessu fjárlagafrumvarpi birtist sú forgangsröðun að nýju innan þess ramma sem settur var við fjárlagagerðina. Eftir nokkurra ára niðurskurð má segja að óhjákvæmilegt sé að þessi forgangsröðun snúist fremur um vörn en stórfellda uppbyggingu. Lögð var sérstök áhersla á það að þessu sinni að standa vörð um framhaldsskólana í landinu sem birtist í því að lægri aðhaldskrafa er á þá í frumvarpinu. Það er líka forgangsraðað innan þess kerfis. Þar er hreinlega horft til þess að þeir skólar sem verr standa fá á sig lægri niðurskurðarkröfu, eða sem sagt 0%, enga niðurskurðarkröfu, en aðrir sem betur standa fá á sig 1%. Hins vegar má deila um það hvort það sé of langt gengið enda höfum við rætt um það hér í þessum sal að mjög mikilvægt sé að verja framhaldsskólana.

Það er þó ekki allt slæmt í því og við skulum horfa til þess að fyrir hrun var þegar búið að hagræða töluvert í rekstri framhaldsskóla, búið að huga vel að því. Það var ekki eins og þar væri feitan gölt að flá þegar að hruni kom. Samt sem áður hefur mikið uppbyggingarstarf farið fram innan framhaldsskólanna. Ég nefni þar innleiðingu nýrra námskráa og innleiðingu nýrra laga. Því miður þurfti að fresta því til 2015 en eigi að síður stefnum við að því að standa við þá tímasetningu og vinnum að því ótrauð.

Við höfum líka unnið mjög ötullega að stefnumótun í starfsnámi og þar hefur mjög mikil vinna farið fram sem við erum strax farin að sjá ávöxt af. Ég nefni þar Vinnustaðanámssjóð og ég nefni hæfniskröfur starfa sem hafa verið skilgreindar í tengslum við námskrár, námslok í starfsmenntun sem hafa verið flokkuð og hæfnisþrep. Mikið samráð hefur verið haft um það hvernig við getum náð þeim markmiðum laganna að ná samræmi milli starfsnáms og bóknáms á framhaldsskólastigi.

Hvað varðar háskólana þá hefur niðurskurður á þá verið meiri. Það var rökstutt á sínum tíma með því að kostnaðurinn þar hefði aukist talsvert meira á árunum fyrir hrun en í framhaldsskólanum. En það er líka ljóst að þó að aðhaldið núna sé einungis 1%, sem hljómar ekki mikið, bætist það ofan á verulegt aðhald undangenginna ára. Ef við horfum til þess hve mikið hefur dregið úr fjárframlögum ríkisins á verðlagi fjárlaga hvers árs á árunum 2008 til 2012 hafa verið teknir út úr háskólakerfinu 3,3 milljarðar og þar af 2,2 úr Háskóla Íslands þannig að þetta er verulegur niðurskurður.

Það jákvæða í þessum efnum er hins vegar að við ráðstöfun innheimtra veiðigjalda er gert ráð fyrir því að hluti þeirra nýtist til fjárfestinga í rannsóknum og þróun, sem mér finnst mjög góð forgangsröðun. Ég vísa þar til verulegrar aukningar í Rannsóknarsjóð, verulegrar aukningar í Tækniþróunarsjóð. Ég held að þessi aukning í samkeppnissjóðina sé í takt við stefnumótun allra þeirra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á þingi, ég held að allir vilji horfa til þess að gæðatengja rannsóknir og fjárframlög til þeirra. Þetta á að sjálfsögðu eftir að nýtast háskólunum. Ég vísa þar til orða hæstv. fjármálaráðherra, sem sagði þegar hún mælti fyrir frumvarpinu, að efnahagsforsendur þess yrðu endurskoðaðar milli umræðna og að ýmislegt benti til þess að þær yrðu hagfelldari en þær sem frumvarpið byggði á. Ég tel að þar sé mikilvægt annars vegar að horfa til framhaldsskólanna og hins vegar að horfa til nemendafjölgunar í háskólum sem hefur ekki verið bætt að fullu, hún hefur verið bætt að 60%. Þetta tel ég vera mjög mikilvæg forgangsmál skapist forsendur til að nýta svigrúm milli umræðna svo fremi sem þessi tekjuspá verði hagfelldari.

Ég nefni líka stöðu menningarstofnana, sérstaklega þeirra sem smærri eru. Menningarstofnanir hafa tekið almennan niðurskurð í stjórnsýslu. Það á þó ekki við um þær allar. Við höfum reynt að forgangsraða innan ráðuneytisins í þágu stofnana og gerðum það upphaflega og beittum þá frekar niðurskurði á tímabundin verkefni, sjóði og fjárframlög úr verkefnum. Það er sú ákvörðun sem við tókum af því að okkur fannst brýnt þá að standa vörð um innviðina. Það er ljóst að mörgum stofnunum hefur verið þröngur stakkur sniðinn og það þarf að horfa til þess. Ég tel líka mikilvægt að við veltum fyrir okkur hvernig við getum nýtt þá fjármuni sem við þá eigum aukalega til að stuðla að enn frekari uppbyggingu. Ég lít því svo á að fjárfestingar í rannsóknum og þróun séu góðar fjárfestingar, ég held að þær skipti máli þjóðhagslega.

Ég vil líka nefna annan málaflokk sem við höfum líka rætt mikið í þessum sal. Ég reyni að hlusta eftir því sem hér er sagt þegar við ræðum um hvernig eigi að forgangsraða og ég nefni íþróttamálin sérstaklega. Það skilar sér í þjóðhagslegum ávinningi, ef svo má segja, hvernig við fjárfestum í íþróttamálum.

Þetta eru þær hugmyndir sem ég tel að við þurfum að skoða sérstaklega og svo þurfum við líka að skoða þá forgangsröðun sem beitt hefur verið í fjárlögunum. Ekki gefst meiri tími til að fara yfir fjárlagafrumvarpið en ég mun svara spurningum.