141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:12]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ekki gefst langur tími til að fara yfir viðamikinn málaflokk mennta- og menningarmála og íþrótta- og æskulýðsmála en ég ætla að reyna að fara yfir nokkur atriði sem mér finnst skipta máli.

Ég vil þakka ráðherra fyrir hennar innlegg á erfiðum tímum en þegar ég las yfir fjárlagafrumvarpið, yfir hluta mennta- og menningarmála, varð ég samt fyrir ákveðnum vonbrigðum. Ég hef verið að hugsa til þeirra fjögurra ára sem liðin eru og til orða þeirra ráðgjafa sem strax var leitað til. Þverpólitísk samstaða var um þá erlendu sérfræðinga sem sögðu: Forgangsraðið í þágu rannsókna og í þágu menntamála.

Að vissu leyti hafa rannsóknarsjóðirnir verið varðir en ég get ekki sagt, þegar litið er til háskólamála, að sérstaklega hafi verið forgangsraðað í þágu háskólanna. Þessu hefur nokkurn veginn verið haldið í horfinu en ekki mikið meira en það. Við sjáum af nýjustu tölum um framlög til háskólamála — og ég á erfitt með að gagnrýna ráðherra á þessum erfiðu tímum, ég skil að þetta er mikil barátta og allt það — að efndir hafa ekki fylgt orðum. Framlög til háskólamála hafa aukist frá 2004 um 0,8% upp í 1,2%, það er bara ekki nóg. Það verður að gera betur og nýta þann skilning sem til staðar er í samfélaginu til að forgangsraða í þágu mennta og rannsókna.

Ég vil meina að þetta sé vannýttur tími. Af hverju segi ég það? Ýmis forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar hafa verið kýld í gegnum þingið en innleiðingu nýrra framhaldsskólalaga hefur verið frestað, innleiðingu laga sem þverpólitísk samstaða var um. Hvert var megininntak allra flokka? Að bæta iðn- og starfsnám og koma í veg fyrir brottfall. Öllu var því frestað. Það er samhengi á milli þessa langa tíma til stúdentsprófs og þess að Ísland er með mesta brottfallið úr framhaldsskólanum. Á þessu var tekið en ríkisstjórn vinstri flokkanna frestaði því að taka á þessum vanda og mér finnst það miður þegar þverpólitískur vilji var til þess að taka saman á þessu.

Vinnustaðanámssjóðnum, sem átti að vera til þess að efla iðn- og starfsnám, var frestað þar til á þessu ári. Getur verið að það sé af því að kosningar eru í nánd? Fara átti í þetta allt í upphafi og nýta það sem erlendir sérfræðingar sögðu, og pólitísk samstaða var um innan lands, um að forgangsraða í þágu mennta- og rannsóknarmála.

Ég spyr hæstv. ráðherra nokkurra spurninga um niðurskurð í tækninámi. Mikill niðurskurður er á framlögum til Háskólans í Reykjavík, sem sinnir að 2/3 hlutum tæknimenntun hér á landi. Hvernig fer verulegur niðurskurður á tæknimenntun saman við þarfir atvinnulífsins og stefnu stjórnvalda?

Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra hvað sameiningum á háskólastigi líður. Á þessum fjórum árum, talandi um vannýtt tækifæri, sjáum við ekki móta fyrir neinni stefnu (Forseti hringir.) um sameiningu eða samræmingu á háskólastigi. Búið er að skipa hóp en ekkert bólar á framtíðarmúsík í þessa veru. Ég held að það skipti miklu máli, (Forseti hringir.) þegar við ræðum fjárlögin, að línur séu skýrar í þeim efnum.