141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:15]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Fyrst þetta, þegar kemur að ráðgjöf þeirra sem ráðlögðu okkur í kreppu og um framlög til menntunar vil ég minna hv. þingmann á að við fórum í átakið Nám er vinnandi vegur. Þar hefur svo sannarlega verið staðið að eflingu starfsnáms. Þar erum við að tala um 600 milljónir sérstaklega í eflingu starfsnáms, 200 milljónir í eflingu náms- og starfsráðgjafar fyrir utan það að opna framhaldsskólann fyrir öllum yngri en 25 ára. Þróunarsjóðurinn var hugsaður til að efla framboð á starfsmenntun þannig að þar erum við að hlíta ráðum.

Þetta átak fór af stað á miðju kjörtímabili þannig að það er ekki hægt að tala um að kosningar hafi þá verið í nánd en vissulega tók tíma að finna út hvernig velferðarráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti gætu unnið sem best saman að því að láta þetta verkefni ná árangri og fá aðila atvinnulífsins til samstarfs. Ég held að það hafi tekist vel þannig að við verðum líka að halda því til haga.

Ég tek undir með hv. þingmanni hvað varðar niðurskurð til háskólamála. Það má spyrja sig hvort þar hafi verið gengið of langt fram, sérstaklega í ljósi þess að háskólanemum hefur fjölgað verulega á þessum árum. Háskólarnir opnuðu sínar dyr fyrir nemendum og þeir hafa ekki verið bættir nema að hluta þannig að þetta er eitt af því sem ég vakti athygli á í ræðu minni að þyrfti að skoða sérstaklega.

Hvað varðar tækninámið, eins og farið var yfir í fjárlagaumræðunni síðast, var horft til þess sérstaklega að við endurskoðuðum reiknilíkanið. Þar voru gerðar ýmsar leiðréttingar, m.a. að hækka reikniflokk hjúkrunar sem lengi hafði verið of lágur, og lögð var áhersla á að verja grunnflokkinn. Hins vegar lækkaði lítillega sá reikniflokkur sem innihélt tækninámið en eigi að síður jukust framlög og við töldum okkur geta rökstutt það því að nemendum fjölgaði.

Hins vegar höfum við núna lokið við endurskoðun á fimmta flokki. Það er eitt af því sem við þurfum að skoða núna og vinna að, þ.e. hvernig við getum leiðrétt stöðu hans í reiknilíkaninu. Ég get að sumu leyti tekið undir gagnrýnina (Forseti hringir.) en svara því þó til að ákvörðunin var rökstudd með því að framlög til þessa málaflokks jukust í raun.