141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Varðandi það að það hafi verið sett í aukna tæknimenntun í gegnum Nám er vinnandi vegur skýtur skökku við að sjá að mesti niðurskurðurinn í framhaldsskólunum og háskólunum beinist að tækninámi, starfsnámi — verkmenntaskólunum. Þetta kemur ekki alveg heim og saman.

Ég undirstrika hins vegar að ég mun styðja ráðherra í þá veru að efla háskólastigið með öllum tiltækum ráðum og ég skynja það að ráðherra hefur einfaldlega ekki fengið nægilegan stuðning innan ríkisstjórnarflokkanna, þá kannski ekki síst hjá samstarfsflokknum, varðandi það að reyna að forgangsraða almennilega og gera meira en bara forgangsraða í þágu menntunar og rannsókna.

Það er mismunun hjá stjórnvöldum vegna forgangsröðunar í fjármögnun háskóla. Raunniðurskurður til Háskóla Íslands frá 2009 er um 1%, Háskólans á Akureyri um 9%, Bifrastar aðeins meira og síðan Háskólans í Reykjavík tæp 18% og ég spyr í framhaldi af spurningu minni áðan: Hvaða ástæður liggja að baki þessari mismunun í fjármögnun háskóla?

Ég undirstrika svo spurningu mína um hvað líði hugmyndum um sameiningu eða annað rekstrarform háskólanna hér á landi, sérstaklega í ljósi þess að gert er ráð fyrir þremur nemendum sem útskrifast á háskólastigi. Er ekki kominn tími til þess að taka burðugri skref í sameiningu háskóla og marka skýrari stefnu?

Getur hæstv. ráðherra sagt okkur eitthvað um framtíð Kvikmyndaskólans? Það skiptir miklu máli, ekki síst í ljósi þess að við erum búin að byggja markvisst upp kvikmyndastarfsemina hér á landi. Kvikmyndaskólinn er hluti af því auk þeirra sjóða sem hefur verið stuðlað að og við sett á laggirnar.

Er hæstv. ráðherra ekki sammála mér um afrekssjóð Íþróttasambandsins — (Forseti hringir.) ég sé að það er nokkurn veginn óbreytt fjárhæð — að það þurfi að marka skýrari stefnu í afreksmálum íþróttafólks? Er (Forseti hringir.) hún tilbúin að fara í það starf og hugsa þá ekki bara fram yfir næstu Ólympíuleika heldur fram til 2024? Ég hefði gjarnan, frú forseti, viljað spyrja um ferðasjóð íþróttafélaga (Forseti hringir.) og svo margt fleira en ég kem að því síðar.