141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:20]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka fram að ég held að það sé samhljómur milli stjórnarflokkanna um það hvernig við stöndum að þessu frumvarpi þó að vissulega sjái ég ávallt ástæðu til að eyða meira fé í menntun og rannsóknir. Það eru hins vegar mörg brýn mál og það verðum við að horfast í augu við.

Ég nefndi Nám er vinnandi vegur áðan og ég vil líka nefna Rannsóknasjóðinn aftur sem ég held að sýni mjög mikilvæga forgangsröðun í þágu rannsókna. Ég vil líka nefna tækninámið á nýjan leik og núna niðurskurð til Háskólans í Reykjavík sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni. Mér finnst mikilvægt að minna á það að skólinn fékk 150 millj. kr. viðbótarframlag á síðasta ári og hluti af forsendum fyrir því var að skólinn mundi standa skil á fleiri nemendum í verk- og tæknigreinum á næstu tveimur til þremur árum en fjárlög voru miðuð við á þeim tíma. Það var hugsunin á sínum tíma á bak við þetta viðbótarframlag. Við megum heldur ekki gleyma því þegar við förum í útreikningana.

Þegar horft er til þess að mismunandi hafi verið skorið niður í háskólum er rétt að benda á það að niðurskurðurinn hefur verið á bilinu 21–23% til skólanna. Það er hins vegar alveg rétt að Háskóli Íslands hefur fengið viðbætur fyrir ný verkefni, annars vegar að sjálfsögðu nýja nemendur, því að þar hefur nemendafjölgunin orðið langmest, og hins vegar í gegnum aldarafmælissjóðinn sem þingmenn samþykktu hér á síðasta ári og tengist 100 ára afmæli háskólans. Við þurfum að horfa á það að annars vegar erum við með niðurskurð á rekstrargrunni og hins vegar erum við með ný verkefni sem hafa verið bætt að einhverju leyti. Við þurfum líka að taka inn í það viðbótarframlag sem Háskólinn í Reykjavík fékk á sínum tíma. Mér finnst mikilvægara að við horfum frekar á þetta út frá endurskoðun reikniflokkanna og ég held að það sé sú leið sem eigi að fara ef við viljum skoða sérstaklega eflingu verklegra greina og tæknigreina.

Sameining háskóla, það er til stefna um samstarfsnet opinberu skólanna og þar höfum við þegar unnið mikið starf í samræmingu. Þetta samstarfsnet er með mögulega sameiningu í huga, eins og hv. þingmaður nefnir, og þar er þegar búið að vinna mikið (Forseti hringir.) undirbúningsstarf fyrir samræmd árangurs- og gæðaviðmið sem ég held að geti skilað miklum árangri, í öllu falli meira samræmi í háskólastarfi.

Ég verð að geyma spurninguna um Kvikmyndaskólann og afrekssjóðinn til síðari tíma.