141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég fagna því sérstaklega að þingið sé með forsætisnefnd í broddi fylkingar að reyna að breyta vinnulagi í þinginu og gera umræðuna markvissari. Ég held að þetta sé mjög virðingarvert skref og þakka fyrir það. En þegar málaflokkar eru umfangsmiklir eins og ráðuneyti mennta- og menningarmála sem hefur marga málaflokka miðað við önnur lönd finnst mér okkur þingmönnum skammtaður naumur tími við 1. umr. til þess að spyrja ráðherra. Ég veit að sá ráðherra sem við erum að ræða við hér hefur þá venju að svara spurningum skilmerkilega. Þess vegna er sárt að horfa upp á það að við fáum ekki svör við þeim spurningum sem við leggjum fram hér í dag sökum þess að ekki hefur verið skammtaður nægur tími.

Það fyrirkomulag að fá meiri tíma hefði verið í þágu upplýstrar umræðu fyrir okkur og betri vinnubragða og ég vildi bara benda á þetta í fullri vinsemd.