141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:26]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér fjárlagafrumvarpið og þær áherslur sem fram koma í mennta- og menningarmálum. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa nýbreytni í fjárlagaumræðunni þar sem fjallað er um einstaka málaflokka með samræðum við fagráðherra í viðkomandi málaflokki og taka undir þær ábendingar sem hv. þingmenn hafa borið fram um að tíminn sé ansi naumur.

Þessi málaflokkur er afar vanmetinn í íslenskri stjórnmálaumræðu því að enginn málaflokkur segir í raun og veru ríkari sögu um hvert við erum að fara til framtíðar en menntamálin. Það má segja að örlög þjóðarinnar ráðist að verulegu leyti af því hvort við hlúum að nýsköpun og framþróun í kennsluháttum og tryggjum sómasamlegan aðbúnað við kennara, nemendur og annað skólafólk. Sömuleiðis eru menningarmálin sá vettvangur þar sem sjálfsmynd þjóðarinnar speglast, aflstöð skapandi greina sem eru að verða ein af burðarstoðunum í okkar atvinnulífi.

Það er mikið fagnaðarefni í þessu frumvarpi og reyndar stórkostlegt framfaraskref að framlög eru aukin til muna í Rannsóknasjóð, Tækniþróunarsjóð og Markáætlun á sviði vísinda og tækni. 1.300 milljónir munu bætast í þessa farvegi sem ættu að gjörbreyta aðstöðu fyrir rannsóknir og nýsköpun hér á landi til framtíðar.

Það er líka sögulegt að fram undan eru miklar breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna þar sem stóra breytingin verður sú að sérstakur hvati verður fyrir nemendur að ljúka námi á tilsettum tíma. Þetta er gamalt baráttumál sem við í Samfylkingunni höfum haldið á lofti árum saman og er mikið fagnaðarefni að nú hilli undir þessar mikilvægu umbætur á námslánakerfinu.

Ég verð að taka undir það sem komið hefur fram í umræðunni hér að framan að þessi málaflokkur hefur þurft að þola mikinn niðurskurð á undanförnum árum. Það er miður en við höfðum í sjálfu sér enga valkosti í þeim efnum eftir fjármálahrunið mikla. Ég hef áhyggjur af stöðu bæði framhaldsskólanna og háskólanna, ég tel að við séum komin að þolmörkum þar og þurfum að sameinast um það í þinginu ef svigrúm skapast milli umræðna til þess að styrkja þessar greinar, styrkja framhaldsskólana og styrkja háskólana. Við verðum að hafa í huga að það sé rétt samhengi á milli þeirra áherslna sem lagðar hafa verið á undanförnum árum um eflingu verk- og tæknináms og fjárveitingar til einstakra háskóla.

Ég bind hins vegar í því efni mjög miklar vonir við þann starfshóp sem er að fara í gang um framtíðarskipan háskólakerfisins með fulltrúum frá öllum þingflokkum, að þar verði mótuð stefna sem við getum nýtt til framtíðar um aukin gæði og samvinnu í háskólakerfinu.

Tíminn er hlaupinn frá mér eins og oft í þessum stól. Ég vil að lokum ítreka ánægju með þessa umræðu og hvet hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra til frekari dáða í málafylgju og legg áherslu á það að hv. allsherjar- og menntamálanefnd mun ekki láta sitt eftir liggja í að tryggja landvinninga (Forseti hringir.) í þessum málaflokki í fjárlagaumræðunni.