141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:36]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Frú forseti. Það er kannski dæmigert eða táknrænt hversu naumur tími er skammtaður til að ræða mennta- og menningarmál því að til þessa ráðuneytis er féð skammtað álíka naumt og tíminn til að ræða um fjárveitingarnar.

Það er vaxandi skilningur á því í þjóðfélagi okkar að menntun er undirstaða allra framfara. Hún er undirstaða verklegrar tækni og hún er undirstaða andlegrar vellíðanar, svo að það er ekkert smáræði sem heyrir undir þetta ráðuneyti. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur það gerst að hið illa þokkaða olnbogabarn á Íslandi, menningin, sem hefur verið kölluð í fyrirlitningarskyni listir, hefur öðlast nýjan sess undir nafninu skapandi greinar, og skapandi greinar hafa verið heppnar með þann menntamálaráðherra sem nú situr.

Það er loksins viðurkennt og sannað að hinar skapandi greinar eru undirstöðuatvinnuvegur, einn af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar, þær eru hátækniiðnaður og þær eru nýsköpun. Það er ekki tilviljun að hluti af starfsemi Hollywood er fluttur til Íslands. Ástæðan er ekki bara landslagið heldur það verk sem hér hefur verið unnið í hinum skapandi greinum.

Því langar mig að víkja stuttlega að kvikmyndamenntun sem er undirstaða þess að kvikmyndagerð sé stunduð hérna. Ég sé ekkert um Kvikmyndaskóla Íslands í þessu fjárlagafrumvarpi og þykir það svolítið skrýtið, svo ég spyr: Er átt við Kvikmyndaskóla Íslands undir liðnum Framhaldsskólar, almennt þar sem stendur Menntun á sviði kvikmyndagerðar? Þar eru tilteknar 58,4 millj. kr. sem er eins og lélegur brandari þegar maður ber þessa grein, sem er kannski sú víðtækasta og mest atvinnuskapandi af hinum skapandi greinum, saman við aðrar atvinnugreinar í landinu. Ég er ekki að segja að of miklu sé varið til annarra skóla, en við leggjum á annan milljarð í landbúnaðarskóla til að mennta bændur og það er bara frábært. Það er rétt tæpur milljarður sem fer í verslunarnám. (Forseti hringir.) Ég ætla ekki í samanburð við listnám á öðru sviði, en Listaháskóli Íslands fær um 660 millj. kr. Þetta hlýtur að vera lélegur brandari. (Forseti hringir.) Er einhver leiðrétting á þessu í pípunum?