141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:52]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra hennar svör. Mig langar að nefna æskulýðs- og íþróttamál. Menn tala stundum um menningu og menning er oftar en ekki það sem maðurinn gerir. Nú höfum við komið okkur upp nýju hugtaki, skapandi greinar, fyrir listir. Ekki ætla ég að lasta það sem fer í listir og skapandi greinar í þessu frumvarpi, því fer víðs fjarri. En ég vil bera saman það sem fer í æskulýðs- og íþróttamál annars vegar og það sem fer í listir og skapandi greinar hins vegar. Þar er himinn og haf á milli.

Þar sem við tölum um að við viljum halda utan um börn og barnafjölskyldur og styðja við heilbrigt líferni finnst mér skjóta skökku við að við skulum verja jafnlitlum fjármunum í æskulýðs- og íþróttamál og við gerum og að við skulum jafnframt vera að skera niður gagnvart skátum á Úlfljótsvatni og gagnvart miðstöð KFUM og KFUK í Vatnaskógi. Mér finnst það skjóta skökku við þegar við viljum samhliða halda utan um börn og unglinga og horfa til heilbrigðs lífs. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig sér hún fyrir sér íþrótta- og æskulýðsmál í náinni framtíð með hag barna og unglinga og fjölskyldna að leiðarljósi, með hag þeirra sambanda að leiðarljósi sem nú starfa í þágu þessara íþróttagreina?

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sjái fyrir sér, í tengslum við Afrekssjóð íþróttamanna og styrki til þeirra sambanda sem nú eru við lýði og hugsanlega fleiri, að hægt verði að horfa til þess sem er til dæmis hjá Skáksambandinu. Við eigum stórmeistara sem eru á fjárlögum ár hvert. Ég spyr hvort hugvísindin og hugíþróttir eins og skákíþróttin eigi að hafa æðri sess en aðrar greinar (Forseti hringir.) eða hvernig hæstv. ráðherra sjái þetta fyrir sér í náinni framtíð.