141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[13:05]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að halda aðeins áfram umræðunni um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Hann er undirstaða fyrir nám stærsta hluta námsmanna, hvort sem við lítum til háskóla- eða framhaldsnáms.

Þegar ég var að lesa á bls. 288 í frumvarpinu fór ég að velta fyrir mér hvort ég skildi það rétt að framlag í afskriftasjóð útlána fyrir árið 2011 næmi tæplega 9 milljörðum, þá um 6 milljörðum meira en gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins 2012. Svo er talað um helstu ástæður varúðarfærslunnar og ég mundi gjarnan vilja að hæstv. ráðherra útskýrði hvað er átt við með einskiptisaðgerð í tengslum við forsendur reiknimódels sjóðsins. Hvað er svo átt við með greiðsluáhrifum vegna neikvæðrar launaþróunar lánþega og breyttri samsetningu og hegðun lántaka? Ég held að það sé mjög mikilvægt að við fáum þessar upplýsingar. Ég held eiginlega almennt í framhaldi af þeim fyrirspurnum sem þegar hafa komið fram hér í dag og umræðunni að við þyrftum eiginlega að fá sem fyrst sérstakan fund í nefndinni um stöðu sjóðsins og þær breytingar sem hér er verið að ræða.

Það er líka búið að ræða aðeins kvikmyndanámið. Svo ég fái aðeins að koma að minni skoðun þar tel ég mjög mikilvægt að það sé boðið upp á kvikmyndanám á Íslandi. Ég er hins vegar ekki endilega þeirrar skoðunar að það eigi bara að vera kvikmyndanám í einum skóla. Það er mjög brýnt að menntamálaráðuneytið tryggi að þeir sem hafa áhuga á þessu námi geti lært kvikmyndagerð á Íslandi og það sem tengist henni en gæti líka að því að gera góða samninga og tryggja sem best nám.

Það er ekki bara kvikmyndagerð sem hefur blómstrað á Íslandi heldur hefur verið mjög áhugavert að undanförnu að fylgjast með því hvernig framleiðsla á tónlist hefur sprungið út. Það eru orðin meira og minna bara íslensk lög á vinsældalistum hér. Hefur ráðherrann einhver áform um að styðja betur við bæði þá sem eru að læra að spila eða semja tónlist og hefur ráðherrann áhuga á að skoða einhvers konar sambærilegt fyrirkomulag og nú viðgengst varðandi kvikmyndagerð um að það komi einhvers konar sérstakur stuðningur við þá sem eru að framleiða, hvort sem það er tónlistin sjálf, að taka hana upp hér, vera með hátíðir, myndbönd við tónlist eða annað? Það væri mjög áhugavert að heyra. (Forseti hringir.) Ég mundi svo vilja koma inn á stöðu fjölmiðla í seinni fyrirspurn minni.