141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[13:08]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Hvað varðar lánasjóðinn tel ég svo vera en ég tel að það sé rétt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd kalli stjórn sjóðsins fyrir til að ræða frekar og fá nánari skýringar á því sem rætt er um varðandi afskriftasjóðinn.

Einskiptisaðgerðin snýr að því hvernig forsendur eru reiknaðar fyrir framlagi ríkisins inn í sjóðinn á móti því sem sjóðurinn aflar með endurgreiðslum, þ.e. hvað ríkið leggur til einstaks láns á móti því sem kemur svo til baka. Þetta hefur verið í kringum 50/50-skipting, þ.e. lánin hafa verið niðurgreidd að hálfu leyti. Þessar forsendur voru endurskoðaðar. Sú endurskoðun tók verulegan tíma þannig að það má segja að það sé einskiptisaðgerð sem breytir þessari eiginfjárstöðu út frá breyttum forsendum.

Greiðsluáhrif vegna neikvæðrar launaþróunar lánþega snúa að því að endurgreiðslur hafa verið að lækka út af neikvæðri launaþróun í samfélaginu og breytt samsetning og hegðun lántaka snýr meðal annars að því að þeir sem hafa tekið lán hafa í auknum mæli tekið hærri lán fyrir lengri námsferli sem kemur þá þannig út fyrir lánasjóðinn að þau lán eru sjaldnast endurgreidd að fullu. Lánþeganum endist hreinlega ekki aldur til að greiða þau til baka.

Þetta tel ég hinar grófu skýringar á því sem hér er rætt um stöðu lánasjóðsins og mér finnst mjög jákvætt að nefndin fari yfir það.

Hvað varðar kvikmyndanámið get ég tekið undir að margir skólar eru að þróa starfsnámsbrautir fyrir kvikmyndagerð. Á næstunni munum við sjá spennandi þróunarverkefni í skólum um land allt og ég held að það sé mjög góður punktur hjá hv. þingmanni.

Hvað varðar tónlistina tek ég undir með hv. þingmanni, við eigum auðvitað Tónlistarsjóðinn okkar og ég kem kannski nánar að honum á eftir.