141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[13:10]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Já, ég mundi gjarnan vilja að hæstv. ráðherra ræddi aðeins þessar hugmyndir um stuðning við tónlistina. Við framsóknarmenn lögðum það fram sem hluta af tillögum okkar í atvinnumálum að tekið yrði upp svipað fyrirkomulag. Ég hef unnið að frumvarpi hvað það varðar og svo veit ég að hv. þm. Skúli Helgason hefur líka sýnt málinu mikinn áhuga.

Síðan sá ég á þingmálaskrá hjá hæstv. ráðherra að það er ætlunin að koma inn með frumvarp um fjölmiðlana. Þó að það séu ekki bein fjárframlög eins og hér um fjölmiðlana er þetta samt málaflokkur sem fellur undir ráðuneyti hæstv. ráðherra og ég verð að segja að ég hef verulegar áhyggjur af stöðu fjölmiðla á Íslandi. Langstærstur hluti af rekstrarkostnaði fjölmiðlafyrirtækja er launakostnaður og eitt af því sem ég hef velt fyrir mér er hvort hægt væri að stofna einhvers konar stuðningssjóð við fjölmiðlamenn, t.d. blaðamenn sem eru að sinna rannsóknarverkefnum. Væri ef til vill hægt að veita einhvers konar skattaívilnanir tengdar launatengdum gjöldum hjá fjölmiðlum til þess að styðja við þá þannig að við værum þá ekki að stýra efnisvali, eins og við værum hugsanlega að gera í gegnum svona styrktarsjóði, heldur horfðum fyrst og fremst til starfsmannafjölda og umsvifa hjá viðkomandi fyrirtækjum?

Þetta er verulegt áhyggjuefni. Að mínu mati eru öflugir fjölmiðlar stór hluti af því að tryggja lýðræðið í landinu, tryggja virka umræðu í samfélaginu, og veikir fjölmiðlar þýða þá einfaldlega að mínu mati veikara lýðræði.