141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[13:12]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hvað varðar stuðninginn við tónlistina eigum við Tónlistarsjóð sem stendur núna í 46 milljónum og síðan eru tvær stofnanir reknar með stuðningi ríkisins, Íslenska tónverkamiðstöðin annars vegar og Útón hins vegar, fyrir utan auðvitað höfuðstofnun okkar á þessu sviði sem er Sinfóníuhljómsveitin. Íslenska óperan nýtur líka framlaga þannig að framlög okkar til tónlistarmála eru víðtæk. Það sem ég held þó að hv. þingmaður sé sérstaklega að nefna er Tónlistarsjóðurinn og Útón sem hafa stuðlað að styrkjum til einstakra tónlistarmanna til tónleikahalds, tónleikaferða og útgáfu.

Ég bind ákveðnar vonir við það, eins og ég nefndi áðan, að verkefnasjóður skapandi greina og þar með talinn Tónlistarsjóður fái aukið bolmagn og að við fjárfestum í þessum sjóðum sem er að mínu viti mjög góð fjárfesting. Við fórum í það í fyrra að styrkja verulega Útón, þessa kynningarmiðstöð íslenskrar tónlistar, og hún hefur staðið sig feikilega vel í því í góðu samráði við geirann. Það er tónlistargeirinn sjálfur sem skipar stjórn Útóns og kemur íslenskum tónlistarmönnum á framfæri erlendis. Ég held að við sjáum árangurinn líka af því hvað þessi geiri hefur verið feikilega öflugur í að byggja upp kynningar- og markaðsstarf og ég styð það eindregið að stjórnvöld styðji hann til þess.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um fjölmiðlana. Auðvitað höfum við fordæmi um það annars staðar, til að mynda frá Norðurlöndum. Við getum nefnt Noreg sem nærtækt dæmi. Hins vegar hafa ný verkefni ekki verið mörg af augljósum ástæðum út af efnahagsþrengingum þannig að ég held að fjárskortur hafi fyrst og fremst ráðið þar för en ekki viljaskortur. Þetta er eitt af því sem við höfum verið að ræða, annars vegar staða landshlutabundinna fjölmiðla og hins vegar staða rannsóknarblaðamennsku almennt. Það eru hugmyndir sem ég hef áður sagt opinberlega að mér finnist mjög áhugaverðar.