141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[13:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra ágæta almenna umfjöllun um fjárlagaumhverfið. Ég þakka sérstaklega fyrir þau orð að hér væri að hefjast vinna vegna þess að mér sýnist á þeim málaflokkum sem heyra undir hans ágæta ráðuneyti að það þurfi að breyta ýmsu þegar einstakir liðir eru skoðaðir.

Ég vildi nefna nokkur atriði. Í fyrsta lagi varðandi samgöngumálin er áhyggjuefni, eins og kom fram í umræðum í þinginu í vor, hve mikið af fjárfestingum, getum við sagt, t.d. á sviði samgöngumála, er lagt á hina sérstöku fjáröflun sem rætt hefur verið um og er að einhverju leyti hafin í formi breytinga á veiðigjöldum en hangir líka á breytingum eins og sölu á eignarhlutum ríkisins í bönkum og slíkum einkavæðingarverkefnum. Auðvitað er óvissa um það. Gangi áform ríkisstjórnarinnar eftir hvað samgöngumálin varðar fæst ívið meira fjármagn til þeirra hluta en verið hefur á undanförnum árum þó að enn sé langt í land með að komið sé til móts við þær óskir og þarfir sem þar eru fyrir hendi, sérstaklega á sviði samgöngumála vegna þess að þar hefur safnast upp þörf fyrir framkvæmdir á undanförnum árum.

Það má deila um árangur ríkisstjórnarinnar í sambandi við ríkisfjármálin en ég hef áður vakið máls á því í þinginu að því miður hefur mjög mikið af þeim sparnaði, ef við getum sagt sem svo, sem ríkisstjórnin hefur náð fram í fjárlagagerð sinni komið fram í því að framkvæmdum er frestað. Það kann að vera að þetta fjárlagafrumvarp endurspegli enn slíkar ráðstafanir.

Til að tala um annan málaflokk hæstv. innanríkisráðherra ætlaði ég að nefna lögreglumál, sýslumannsembætti og annað þess háttar. Ég gerði mér vonir um að um yrði að ræða frekari úrbætur og aukin framlög á því sviði til stærstu lögregluembættanna og löggæslumála almennt. Umræðan í þjóðfélaginu hefur sýnt að það er þörf fyrir (Forseti hringir.) aukna fjármuni á því sviði. Eftir því hefur verið kallað og í opinberum umræðum, m.a. hér í þinginu, hefur komið fram vilji flestra, held ég, (Forseti hringir.) ef ekki allra sem um þau mál hafa tjáð sig, þar á meðal hæstv. innanríkisráðherra, til að bæta þar úr.