141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[13:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég nefndi hér að á mörgum sviðum hefði framkvæmdum verið skotið á frest. Stærstu dæmin eru á sviði samgöngumála þar sem afar mikið hefur verið hægt á ferðinni miðað við það sem áður var áformað. Margar af þeim framkvæmdum eru þess eðlis, endurbætur og lagfæringar ýmiss konar og þess háttar, að þær geta orðið enn kostnaðarsamari ef þeim er skotið á frest. Fram hafa komið rökstuddar áhyggjur um að akkúrat það hafi verið að gerast með vegakerfi okkar að ýmsum framkvæmdum á því sviði hefur verið frestað sem geti gert það að verkum að endurbætur, viðhald, verði dýrara þegar fram í sækir.

Ég vildi biðja hæstv. ráðherra að fjalla aðeins nánar um það sem snýr að löggæslunni. Mér sýnist á tölum um framlög til löggæslumála að hækkun framlags milli ára hangi varla í við verðlagsþróun, það er undir verðlagsþróun að því er mér sýnist. Þannig hefur það verið um nokkurt skeið. Menn þekkja umræðu sem fór t.d. fram í sumar um gríðarlega fækkun í hópi lögreglumanna. Sér hæstv. ráðherra fyrir sér áframhaldandi þróun á því sviði eða sér hann fyrir sér að hægt verði að bæta þar úr?

Að lokum vildi ég nefna að aðrar stofnanir á þessu sviði, eins og Fangelsismálastofnun, eru í töluvert mikilli óvissu miðað við að ekki er gert ráð fyrir stærstu framkvæmdinni á hennar vegum í frumvarpinu, þ.e. fangelsi á höfuðborgarsvæðinu, sem mikið hefur verið í umræðunni og er í undirbúningi eftir því sem fréttir herma.