141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[13:47]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrst ein mjög afdráttarlaus yfirlýsing: Það er engin óvissa varðandi nýtt fangelsi á Hólmsheiði. Það er alger eining um það í ríkisstjórn að af þeirri framkvæmd verður. Það er, eins og greinir frá í fjárlagafrumvarpinu og textum sem því fylgja, skilgreint með hvaða hætti sú bygging skuli fjármögnuð.

Staðreyndin er náttúrlega sú að íslenskt samfélag hefur þurft að láta fjármuni renna inn í fjármálakerfið vegna hrunsins með beinum og óbeinum hætti. Nú er komið að því og mun koma að því að við tökum einhverja fjármuni til baka. Fyrirhugað er að selja hluta af fjármálakerfinu og taka þaðan arð. Þessir fjármunir, sem áður voru í reynd veittir inn í þetta kerfi, verða núna teknir þaðan út og varið til samfélagslegra mikilvægra verkefna. Ég nefni þar nýja ferju til Vestmannaeyja sem er forgangsmál hjá okkur og hefur verið, samgöngubætur og nýtt fangelsi. Það er því deginum ljósara að nýtt fangelsi verður reist.

Einnig höfum við reynt að hlífa löggæslunni umfram aðra þætti. Það gerðum við þegar rætt var um aðhaldsaðgerðir með því að hafa allar slíkar kröfur á hendur löggæslunni lægri en á alla aðra starfsemi. Það er vegna þess að menn sjá í hendi sér að þar má ekki ganga lengra. Það á líka við um ýmsa aðra starfsemi. Ég vísa til sýslumannsembættanna. Það er nokkuð sem við þurfum að skoða líka og ýmissa annarrar kjarnastarfsemi sem heyrir undir regnhlíf innanríkisráðuneytisins.

Að lokum þetta: Við höfum náttúrlega látið peninga fara þangað sem þeirra hefur verið mest (Forseti hringir.) þörf innan löggæslunnar. Það eru tugir milljóna sem við höfum veitt til þess að efla rannsóknir og forvarnir gegn skipulagðri glæpastarfsemi.