141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[13:49]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir inngangsorð hans. Hann fór yfir lífið eftir hrun og hvernig sá veruleiki hefur mótað stjórnmálin. Lexíurnar af hruninu eru margvíslegar. Við höfum horfst í augu við þær margar hverjar — of stórt bankakerfi og eftirlitslaus og óheftur kapítalismi og sumpart værukærir stjórnmálaflokkar sem voru í of nánum tengslum við viðskiptalífið og kannski værukærir stjórnmálamenn sem voru í of nánum tengslum við viðskiptalífið þegar kom að prófkjörum og vali á flokkslista.

Mig langar að nota þetta tækifæri til að ræða það við hæstv. innanríkisráðherra hvað líði undirbúningi persónukjörs og hvar þess sjáist merki í fjárlagafrumvarpinu að menn séu að vinna að þeim breytingum sem gert var ráð fyrir í stjórnarsáttmála Vinstri grænna og Samfylkingarinnar í þá átt.

Nú eru margir stjórnmálaflokkar farnir að setja sig í stellingar fyrir prófkjör í haust rétt eins og ekkert hafi í skorist. Auðvitað er búið að setja skýrar reglur um fjárútlát, styrkjaupphæðir o.s.frv. Það er vel til bóta en ég held að hæstv. ráðherra sé sammála mér um að betur megi ef duga skal. Ein besta leiðin til að tryggja að stuðningsmenn flokka komi að vali frambjóðenda er að færa persónuval inn í kosningarnar.

Því er spurt, að því gefnu að unnið sé að undirbúningi: Hvað líður þeim undirbúningi? Hvað er áætlað að breytingarnar kosti mikið ef af þeim verður? Hvenær má búast við því að tillögur eða frumvarp frá hæstv. ráðherra komi í þingið?