141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[13:52]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þingmanni varðandi persónukjör og þær áherslur sem hann setur fram í þeim efnum. Við erum skoðanabræður hvað það snertir.

Hvar sjást þess merki að unnið sé að þessum málum? Merkin sjást á netinu. Á vefsíðu innanríkisráðuneytisins eru núna til kynningar frumvarpsdrög sem unnin voru í nánu samráði við sveitarfélögin í landinu og koma fljótlega inn í þingið. Settur var á fót starfshópur þessara aðila til að móta tillögur og er þær að finna á netinu þar sem óskað er eftir viðbrögðum almennings. Þessi háttur hefur verið hafður á í málaflokkum sem brenna á samfélaginu þar sem gott þykir að fá viðbrögð utan úr samfélaginu. Ég vonast til að við komum með slíkt frumvarp inn hið bráðasta.

Annars er í undirbúningi frumvarp sem snýr að rafrænni kosningu sem er mikið hagsmunamál í samfélagi sem ætlar að færa sig inn í 21. öldina sem verður öld hins beina lýðræðis. Ég er ekki í neinum einasta vafa um það. Þá er mjög mikilvægt að við búum í haginn tæknilega þannig að við getum framkvæmt þjóðaratkvæðagreiðslu á eins hagkvæman og ódýran máta og mögulegt er. Hver kosning kostar um 250 milljónir eða þar um bil, en ef okkur tekst að koma upp slíku rafrænu kerfi fer kostnaðurinn niður. Hins vegar þarf að taka þessi mál í einhverjum tilhlaupum. Við sjáum það fyrir okkur að byrja á rafræna fyrirkomulaginu hjá sveitarfélögunum, hugsanlega í tilraunakosningum um beina atkvæðagreiðslu, (Forseti hringir.) og færa okkur síðan áfram með þá langtímahugsun að það verði nýtt í öllum kosningum.