141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[13:54]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessi svör og þóttist vita að unnið væri að undirbúningi þessa máls í ráðuneytinu. Það er mjög gott að fá staðfestingu á því hér í þingsal að starfshópur sé að verkum og að frumvarpsdrögin séu komin á netið. Það er um að gera að hvetja almenning og ráðuneyti til dáða í þessum efnum. Það er gríðarlega mikilvægt að þessar reglur verði til taks og reiðubúnar fyrir næstu kosningar þannig að menn geti haft þær í huga þegar kemur að þeim prófkjörum sem fram undan eru hjá stjórnmálaflokkunum, þ.e. að þau séu ekki endanleg, að niðurröðun stjórnmálamanna í þeim sé ekki endanleg heldur geti almenningur og kjósendur flokkanna haft áhrif í kosningunum sjálfum. Það er gríðarlega mikilvægt.

Ég fagna því líka að unnið sé að því að rafvæða kosningakerfið. Það á að vera hægur vandi fyrir okkur í þessu litla og fámenna landi sem er með jafnmikla útbreiðslu á nettengingum og tölvueign og raun ber vitni. Þetta er gott að heyra og ég fagna því.