141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[13:55]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ítreka samstöðu með hugmyndum hv. þingmanns. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að eðli stjórnmálabaráttunnar komi til með að breytast hvað varðar formin og stofnanirnar. Ég er ekki viss um að stjórnmálaflokkar sem stofnanir muni hafa sama vægi og áður var þegar lengra líður á þessa öld. Ég hygg að beint samband á milli kjósandans og þeirra sem kjósandinn vill velja sérstaklega á persónulegum forsendum muni aukast. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er eðlilegt að sem flestir sem styðja stjórnmálahreyfingu sem merkisbera tiltekinna hugsjóna og hugmynda hafi beint val um það hvernig raðað er á lista og hvernig forgangsraðað er á lista án þess að eiga endilega aðild að stjórnmálaflokknum sem slíkum.