141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[13:57]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. innanríkisráðherra fyrir framsögu hans um fjárlögin þó að umræðan hafi farið aðeins út um víðan völl við síðustu fyrirspurn.

Það sem mig langar mest að leggja hér áherslu á er að hrósa hæstv. innanríkisráðherra og innanríkisráðuneytinu sjálfu fyrir það að hækka framlög til Landhelgisgæslunnar. Það er mikið öryggisatriði fyrir okkur sem eyþjóð að rekstur Landhelgisgæslunnar sé í lagi. Í frumvarpi þessu er lagt til að bætt verði 250 millj. kr. viðbótarframlagi til rekstursins vegna langtímaleigu á þriðju björgunarþyrlu Gæslunnar. Þessu ber að fagna, frú forseti. Ég er hér að benda á jákvæðan punkt sem felst í þessu frumvarpi. Ég hef lagt á það áherslu og Framsóknarflokkurinn alla tíð að staðinn sé vörður um málefni Landhelgisgæslunnar og rekstur hennar vegna öryggis sjómanna og svo öryggis okkar sem eyþjóðar.

Það sem undrar mig og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í er það sem fellur undir viðhalds- og stofnkostnað, nánar á bls. 328. Þar er lagt til að 237 millj. kr. fari í þjónustusamning milli íslenska ríkisins og Farice ehf. sem rekur tvo sæstrengi milli Íslands og Evrópu. Hvernig stendur á því að þessi upphæð er svona há? Eins og allir vita var þetta verkefni á vegum einkaaðila hér fyrir hrun, Danice-strengurinn sjálfur. Inn í landið átti að koma mikil fjárfesting þegar þessi sæstrengur var lagður en eins og vitað er var viðkomandi verkefni gert gjaldþrota, kastað í fang ríkisins, ríkið tekur við því og veitir víkjandi ríkisábyrgð sem virðist nú verða að virkja. Þarna liggja tæpar 240 millj. kr. Þetta er nokkuð líkt því sem gerðist með Hörpuna, nema bara í miklu minna mæli, en lýsir því hvernig ríkisstjórnin gekk frá sínum málum þegar þessi vinstri velferðarstjórn kom. Óspart hefur verið dælt út ríkisábyrgðum sem virðast koma í bakið á ríkissjóði núna. Hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, taldi aldrei neina hættu á því að virkja þyrfti þær ríkisábyrgðir sem hann er búinn að vera að henda út í loftið akkúrat á þessum grunni. Það væri því æskilegt ef hæstv. innanríkisráðherra gæti farið yfir það hér í andsvari hvernig á þessu stendur.