141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:00]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni vinsamleg orð í garð innanríkisráðuneytisins og lýsa samstöðu með henni og sjónarmiðum hennar varðandi Landhelgisgæsluna og mikilvægi þess að hafa hana sem kröftugasta. Landhelgisgæslan hefur því miður þurft að sæta aðhaldi á undangengnum árum, eins og aðrar stofnanir á vegum hins opinbera, en hefur síðan leitað út fyrir landsteinana, leigt skip og flugvél á suðrænar slóðir í Miðjarðarhafi og Mexíkóflóa, aflað þannig tekna. Þannig höfum við reynt að afla fjármuna til að halda Landhelgisgæslunni gangandi en vonandi eru betri tímar fyrir dyrum svo að okkur takist að efla hana, meðal annars með því að fjölga þeim þyrlum sem hún hefur til ráðstöfunar til björgunar.

Varðandi Farice er það að segja að samskiptin, fjarskiptin við útlönd, eru okkur svo mikilvæg að líkja má því við að hjartavél sé tekin úr sambandi ef slíkir strengir rofna. Það á við um Farice. Það er allt undir að okkur takist að hafa samfélag okkar vel tengt inn í Evrópu, en Farice er strengurinn sem tengir Ísland og Evrópu. Þegar nauðsynlegt var, af ófyrirsjáanlegum ástæðum, að setja meira fé þangað inn áttum við ekki annan kost en gera það.

ESA var með athugasemdir varðandi fyrirkomulagið á slíkum stuðningi, að það gengi ekki að fyrirtækið yrði styrkt á markaðsforsendum (Forseti hringir.) heldur þyrfti samfélagið að koma þar að. Það var hlutur innanríkisráðuneytisins að koma að málinu sem fulltrúi almennings til að tryggja samfélagslega hagsmuni sem voru (Forseti hringir.) ótvíræðir.