141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:02]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum svarið. Til að ljúka þessari Farice-umræðu hef ég skoðað þetta mál mjög vel. Um er að ræða allt of háa gjaldtöku hjá þessu fyrirtæki. Það er ekki samkeppnishæft á Evrópumarkaði vegna þess að gjaldið er svo hátt. Ég minni á að nú er Farice ehf. komið í ríkiseign að mestu leyti vegna þess að ríkið er farið að leggja fjármagn þar inn. Í ljósi þess að nú er að rísa upp nýr samkeppnisaðili, Emerald Network, sem ætlar sé að leggja ljósleiðara hingað til lands í beinni samkeppni við ríkið, bið ég ráðherra að vera vel á varðbergi. Ég vara við því að meira ríkisfé sé lagt þarna inn heldur verði fyrirtækið, nú að mestu leyti í eigu ríkisins, knúið til að lækka verðskrá sína. Það þarf að vera búið undir væntanlega samkeppni og gæta þarf þess að sem minnst af ríkisfé tapist.

Mig langar að vísa í ræðu mína frá því á miðvikudaginn varðandi uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu. Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að undir liðnum neyslu- og rekstrartilfærslur fara 650 milljónir til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu í samræmi við samkomulag ríkisins og sveitarfélaganna á svæðinu. Þetta eru himinháar upphæðir. Þessi samningur var gerður til 10 ára. Á sama tíma hefur ekki verið lagt mat á náttúruvá á svæðinu. Það er viðurkennt að Ártúnsbrekkan ræður ekki við fólksflutninga verði hér náttúruvá. Ég vil spyrja ráðherrann út í þetta. Er ekki algjört kæruleysi að hafa gert þennan þjónustusamning, viðhaldssamning til 10 ára, í stað þess að fara að huga (Forseti hringir.) að Sundabraut eða öðrum samgönguleiðum út úr höfuðborginni — og um þetta spyr ég sérstaklega í ljósi þess þegar fé til samgönguúrbóta er notað til að keyra á Höfn í Hornafjörð og Akureyri (Forseti hringir.) sem kemur höfuðborginni raunverulega ekkert við.