141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:05]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrst örfá orð um Farice. Ég ætla mér ekki þá dul að fara í umræðu um tæknilegar útfærslur þar og ekki heldur fjárhagslegar skuldbindingar. Þar þurfa að koma til sérfræðingar fjármálaráðuneytis sem höfðu veg og vanda af frágangi samninga um það efni. Innanríkisráðuneytið kemur síðar að þeim málum sem samningsaðili vegna ábendinga frá ESA eins og ég gat um áðan. Ég tek undir með hv. þingmanni að þarna þurfum við að halda vel á spöðunum og gæta vel að hagsmunum Íslands og íslenskra skattgreiðenda.

Varðandi almenningssamgöngur og náttúruvá sem er mjög mikilvægt sjónarhorn í samgöngumálum — ég tek undir það með hv. þingmanni. Ég vil gera greinarmun á því sem fram kom í máli hv. þingmanns varðandi viðhald annars vegar og uppbyggingu samgöngumannvirkja hins vegar. Framlag til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu var hugsað sem valkostur við nýja uppbyggingu, ekki við viðhald. Þegar náttúruváin er annars vegar hef ég vakið athygli á því að það er mikilvægt fyrir okkur að hafa flugvöll í Reykjavíkurborg, vegna þess að ef við horfum á Reykjanesið hafa hraunin þar runnið á árunum eftir landnám. Það var fyrst og fremst á 12. öldinni sem Reykjanesið var allt eitt logandi eldhaf. Við þekkjum síðan eldsumbrotin árið 1000. (Forseti hringir.) Hverju reiddust goðin? Það munum við. Það er Hellisheiðin. Þess vegna er mikið hagræði af því fyrir okkur að hafa flugvöll á höfuðborgarsvæðinu. Það er öryggismál líka. Eins og hv. þingmaður nefndi (Forseti hringir.) þurfum við að horfa á samgöngumálin og náttúruvána í einu og sama vetfanginu.